FÍ stikar gönguleiðir á fjöll í nágrenni Reykjavíkur

Ferðafélag Íslands hefur að undanförnu unnið að því að stika gönguleiðir á fjöll í nágrenni Reykjavíkur. Alls hafa verið stikaðar gönguleiðir á 10 fjöll í næsta nágrenni Reykjavíkur og verkefnið unnið í samstarfi við sveitarfélög og styrkt af Pokasjóði.

Fjallgöngur hafa að undanförnu aukist gríðarlega á meðal landsmanna og meðal annars í kjölfar á fjallaverkefnum FÍ; Eitt fjall á viku, eitt fjall mánuði og morgungöngum FÍ og eru stundum um helgar fleiri hundruð manns í fjallgöngu á fjöllum hér í næsta nágrenni Reykjavíkur.

Jafnframt því að stika gönguleiðir voru sett upp skilti við upphaf gönguleiða þar sem útivistarfólk er hvatt til að ganga vel um náttúru landsins og hafa með sér nauðsynlegan búnað til fjallgangna sem og að láta vita af ferðum sínum. 

Þá er góð relga að ferðast aldrei einn til fjalla og öryggi manna eykst til muna við það að vera tveir á ferð.

Nauðsynlegur búnaður til fjallgangna er góður göngufatnaður og hlílfarföt, góðir gönguskór og bakpoki með nestisbita og heitt á brúsa.  Þá finnst mörgum betra að hafa göngustafi.