FÍ sýning hjá Toyota

Ferðafélag Íslands hitar upp fyrir göngusumarið með veglegri og skemmtilegri ferðakynningu fyrir alla fjölskylduna á Toyotasýningu sem haldin verður í Kauptúni á laugardaginn á milli kl. 12 og 16.

Sýningin er tileinkuð Ferðafélagi Íslands sem fagnar 90 ára afmæli um þessar mundir. Ferðaáætlun FÍ fyrir árið 2017 er líka sérlega vegleg vegna þessara merku tímamóta. 

„Leiðsögumenn koma beint af fjöllum og kynna brot af þeim fjölmörgu og fjölbreyttu ferðum sem eru á döfinni,“ segir Hugrún Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá FÍ, sem borið hefur veg og vanda af skipulagningu þessarar útivistarveislu hjá Toyota. „Þar má nefna jógaferð í Hornbjargsvita, göngu á Sveinstind í Öræfajökli, fjölskyldugöngu um Laugaveginn og göngudaga á Ströndum, þar sem tækifæri gefst á að mæta á einstaka tónleika með Mugison.”

30070445461_5012b5e037_o.jpg


Hin forvitnilega saga Ferðafélagsins verður kynnt í máli og myndum en mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun þess árið 1927 þegar félagarnir voru 63 talsins. Ferðafélag barnanna bregður líka á leik með ýmis konar sprelli og þá verða gestir einnig leiddir í allan sannleikann um akstur í óbyggðum.

Fjallakofinn kynnir fjallaskíði, hina bráðskemmtilegu íþrótt sem hefur sótt í sig veðrið á Íslandi en fátt jafnast á við að sameina hressandi fjallgöngu og frelsandi brun niður brattar brekkur.

19918410334_31833ba4cd_o.jpg

Garminbúðin mætir með leiðsögu- og útivistartæki og geta gestir og gangandi meðal annars fengið að prófa nýjasta jeppatækið GPSmap 276Cx og Garmin inReach GPS tæki með neyðarsendi í gegnum gervihnött. Einnig gefst tækifæri til að skoða gömul GPS tæki og sjá með eigin augun hvernig tækninni hefur fleygt fram. Þá ætlar Toyota að frumsýna einn rosalegasta jeppa sem Íslendingar hafa augum litið, gjörbreyttan fjallabíl. 

Og til að virkja heilasellurnar verður boðið upp á getraunir fyrir unga sem aldna og í boði eru veglegir vinningar frá Ferðafélaginu, Fjallakofanum og Garmin.

„Ég hvet alla þá sem hafa yndi af útivist og hreyfingu til að taka laugardaginn frá. Við byrjum á hádegi og því er tilvalið að skella sér í morgungöngu fyrir herlegheitin og mæta fullfrískur í göngu- og ferðagleðina sem verður allsráðandi í Kauptúninu. Þeir sem hafa auka orku þurfa ekki að örvænta því hægt verður að dilla sér við klassíska íslenska slagara sem hafa fylgt þjóðinni á ferð um landið en þeir fjallabræður Örvar og Ævar, betur þekktir sem Örævar, halda uppi stuðinu,“ segir Hugrún að lokum.