Páll Ásgeir Ásgeirsson fararstjóri í morgungöngum:
Fimm fjöll á einni viku
Morgungöngur í maí hafa unnið sér fastan sess í starfi Ferðafélags Íslands. Þær verða á dagskrá dagana 4. til 8. maí. Páll Ásgeir Ásgeirsson er fararstjóri. Göngurnar njóta stöðugt meiri vinsælda og þáttakendum fjölgar. Á fallegum vormogni er landið sveipað ævintýralegri birtu og þá er gaman að ganga á fjöll. Margir nýta sömleiðis sér þetta tækifæri til að komast í gott form fyrir lengri ferðir sumarsins, segir Páll Ásgeir.
Í ár verður gengið á sömu fjöll og í fyrra: Keili, Helgafell við Hafnarfjörð, Vífilfell, Helgafell í Mosfellsdal og Úlfarsfell. Þátttakendur í göngunum hafa verið á öllum aldri og gjarnan á bilinu fjörutíu til fimmtíu. Í fyrra var ýmiskonar gamni blandað saman við, svo sem morgunleikfimi undir stjórn Valdimars Örnólfssonar, prestur flutti fjallræðu í einni ferðanna og á Úlfarsfelli söng Karlakórinn Fóstbræður fyrir göngumenn meðal annars lagið Skjaldbreið, betur þekkt sem Fannar skauta faldi háum.
Fáfarið en heillandi
Aðra helgina í ágúst í sumar verða Páll Ásgeir og Rósa Sigrún Jónsdóttir eiginkona hans fararstjórar í leiðangri sem nefnist Óeiginlegur Laugavegur. Þar verður í þriggja daga Laugavegsgöngu með trúss farið út fyrir hina hefðbundnu leið. Á fyrsta degi verður gengið inn á svonefnda Skalla, í Hattver, upp að Háuhverum og gegnum gil bakvið Háskerðing í Hvanngili. Er það löng og krókótt dagleið um fáfarnar en heillandi slóðir. Á öðrum degi verður gengið úr Hvanngili í Álftavatn og þaðan á Brattháls. Þar verður vaðið yfir Kvíslar og Súluhryggjum fylgt að Emstruá. Þaðan gengið að brú á Emstruá, í Hattafellskofa og Markarfljótsgljúfrum fylgt í Emstruskála. Á lokadegi göngunnar verður farin hefðbundin leið frá Emstruskála og krókaleiðir um gil norðan Rjúpnafells. Gengið verður á fellið ef veður leyfið og fylgt Tindfjallastíg. Ferðinni lýkur í Langadal.
Ég hlakka mikið til þessarar ferðar. Hef verið að afla mér upplýsinga um þetta svæði sem er afar spennandi. Þessar slóðir eru ekki ýkja fjölfarnar og ferð um þær eru viðleitni FÍ til að beina sívaxandi álagi ferðamanna um landið á fleiri staði.
Svipir á sveimi
Páll Ásgeir er reyndur fjallamaður og víða kunnugur eins og best sést á bókum hans, sem vinsælda njóta. Þau Rósa Sigrún munu í sumar fara víða sem fararstjórar á vegum FÍ. Munu meðal annars fara fyrir fjögurra daga ferð um slóðir norðan Mýrdalsjökuls, þar sem gengið verður frá Álftavatnakróki í Rauðabotn. Í september stýra þau svo draugaferð í Hvítárnes og að Beinhól á Kili. Í Hvítárnesi er elsta sæluhús Ferðafélagsins og hefur lengi verið talað um draugagang þar. Þá hafa ýmsir þótt greina svipi á sveimi á Kili og verður rifjuð upp harmsagan um endalok Reynistaðabræðra sem áttu sitt hinsta leg við Beinhól.