Friðrik Alfreðsson viðskiptastjóri hjá Símanum og fjallgönguáhugamaður með meiru kláraði um síðustu helgi eina rækilegustu fjallgöngu sem fyrirfinnst hér á landi, sjálfa Hrútsfjallstinda. Hann fór á tindana með 20 manns á vegum FÍ undir stjórn Guðmundar Freys Jónssonar. Hópurinn lagði af stað kl. 23 á föstudagskvöldið og naut stórkostlegs útsýnis þegar hærra dró og líða fór á morgun eftir næturlanga göngu.
"Ég hugðist fara á fjallið með starfsfélögum mínum þann 21. maí, en þá stóð ekki nægilega vel á hjá mér þannig að ég ákvað að fara síðar og klára verkefnið með FÍ," segir Friðrik. "Þegar ég gekk á Hvannadalshnúk í fyrra, þá setti ég markið næst á Hrútsfjallstinda, enda var búið að segja manni að þeir væru ennþá skemmtilegri og jafnframt meira krefjandi en Hnúksganga. Og með þetta í veganesti fór ég með FÍ á tindana og í stuttu máli sagt stóð ferðin fyllilega undir öllum væntingum. Það varð til að auka enn frekar á upplifunina hvað veðrið var gott," segir hann.
Leiðin lá upp með Skaftafellsjökli og þaðan er haldið á Hafrafellið þar sem jafnan fæst fyrsta útsýni á takmarkið - ef skyggni er gott. "Það veitir manni alltaf ákveðinn kraft að sjá takmarkið birtast manni en á hinn bóginn fannst mér gangan síður en svo of strembin. Þetta gekk hægt og bítandi og að mínu mati var gangan hæfilega erfið miðað við 15 tíma háfjallagöngu. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað ég var að fara út í en hafði þó Hnúkinn sem ágætt viðmið. Ganga á Hrútsfjallstinda er í meginatriðum svipuð Hnúknum, þótt byrjunin og blálokin reyni meira á," bendir Friðrik á.
Hann lýsir því svo að Vesturtindur (1756 m) hafi í fjarska virst býsna óárennilegur. "En þegar nær dró þá reyndist hann minni hindrun en maður hélt í fyrstu," segir Friðrik. "Við klifum tindinn og það var einstaklega glæsilegt útsýni sem við fengum að launum. Fólk var mjög stolt yfir að ná tindinum, en þegar þangað kom var eininungis formsatriði að ganga yfir á Hátind. Þar tókum við góða hvíld og ferðafélagarnir voru vel afslappaðir og sjá mátti suma fá sér svolítinn lúr. Það sást til annars hóps leggja á Suðurtind, upp mjög bratta brekku, og það var ekki laust við að manni þætti glæfralegt að sjá klifrarana álengdar á berskjölduðum og tilkomumiklum hryggnum sem lá upp á tindinn."
Eftir áningu á Hátindi var síðan farin sama leið til baka.
"Það hvarflaði aldrei að mér að við myndum ekki komast á tindinn," segir Friðrik. "En þetta var drjúglöng ganga og færið þungt á stöku stað. Þetta eru þó aukaatriði þegar ferðin í heild er metin. Allt umhverfi Hrútsfjallstinda er stórbrotið og gleymist aldrei þeim sem klífa tindana. Ég mæli hiklaust með Hrútsfjallstindum við þá sem hafa gengið á Hvannadalshnúk og eru að leita að ögn strembnara verkefni."
Segja má að flestir þeirra sem ljúka Hrútsfjallstindagöngu leiði hugann að næsta fjalli og varla er sú ferð farin á fjallið þessa dagana að ekki sé bent á næsta verðuga verkefni: Þverártindsegg í Suðursveit. Sú ganga er mun styttri, ef farið er á fjallið frá Kálfafellsdal, en brattari. "Jú, Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ sem var með okkur í ferðinni, gerði sér lítið fyrir og bókaði okkur öll á Eggina næsta vor," segir Friðrik og hlær. "Það tóku nú allir vel í það og trúlega lætur maður bara slag standa og freistar uppgöngu að ári," segir Friðrik að lokum.