Fjall mánaðarins: Fótfrár og Þrautseigur.
23. janúar verður gengið Reykjaborg Mosfellsbæ 286 m.
Fyrir austan Reykjahverfið í Mosfellsbæ rís Reykjaborg, lítið fell og stakur klettahöfði, alláberandi séður frá bænum. Þangað er förinni heitið í fyrstu göngu gönguverkefnisins „Fótfrár“ hjá Ferðafélagi Íslands. Gengið verður upp með Varmá þar sem hún rennur ofan við byggðina um Húsadal. Fyrst verður komið að Borgarvatni og þaðan gengið á Reykjaborg. Ef veður leyfir verður einnig gengið á Þverfell við Bjarnarvatn og næst þá mjög skemmtilegur gönguhringur. Útsýn af Reykjaborg kemur skemmtilega á óvart. Vel sést yfir jökulsorfin fellin í nágenninu og vestur yfir höfuðborgarsvæðið, út á Reykjanes og austur yfir Mosfellsheiði allt austur að Hengli og víðar.
Við ætlum að hefja gönguna á bílastæðinu við heilsustofnunina Reykjalund. Ekið er upp í Mosfellsbæ og á hringtorginu við N1 bensínstöðina er beygt til hægri upp í Krika, Teiga og Byggðahverfi. Ekið er upp á bílastæðið framan við Reykjalund.
Gangan hefst við Reykjalund kl. 11.00. Þeir sem vilja geta hist við FÍ Mörkinni 6 kl. 10.30.
Gangan á Reykjaborg er 10 km. Hækkun göngunnar er 286 m.
Gera má gera ráð fyrir að hópurinn verði aftur við bíla um kl. 14. – 15.00.
Klæðnað og útbúnað þarf að miða við veður og aðstæður. Munið eftir hálkubroddunum.