Tólfta ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2012 á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 8 desember.
Skálafell á Hellisheiði er fjall sem blasir við á hægri hönd þegar ekið er austur Hellisheiði. Það er eitt af þeim fjöllum sem láta lítið yfir sér en þegar komið er upp á það kemur útsýnið á óvart. Nafnið mun vera dregið af skála Ingólfs sem hermt er að hafi verið þar. Það er skemmtilega staðsett á heiðarbrúninni fyrir ofan Ölfusið og á góðum degi er mjög víðsýnt af fjallinu, sérstaklega til suðurs og til austurs yfir suðurlandsundirlendið. Skálafellið er dæmigert móbergsfjall sem hefur orðið til við gos undir jökli. Það liggur sunnarlega á háhitasvæði Hengilsins og eru heitir hverir norðan við fjallið þar sem heitir Hverahlíð.
Skálafell á vetrarkvöldi
Upphafstaður göngunnar frá slóða Orkuveitunnar að Hverahlíð. Hann er skömmu eftir að komið er upp Hveradalabrekkuna. Leiðin liggur fyrst yfir hraunbreiður og upp á brún Hverahlíðar sem er norðan við fjallið. Þaðan er stefnan tekin á norð-austur öxl fjallsins og liggur greið leið þaðan og alla leið á tindinn. Farin verður sama leið til baka.
Ekið er áleiðis upp á Hellisheiði. Þegar komið er upp fyrir Hveradalabrekkuna er afleggjari eða slóði til hægri sem liggur áleiðis að borholum Orkuveitunnar undir Hverahlíð. Hægt er að leggja bílum á þessum slóða.
ATH. Þar sem þetta er síðasta gangan okkar á árinu og aðventan byrjuð viljum við hvetja alla til að skreyta sig með einhverju jólatengdu, t.d. föt og húfur eða jólaskraut í föt og á pokann. Einnig verður efnt til nestispásu af dýrari gerðinni. Fólk er hvatt til að koma með eitthvað jólalegt með sér í nestisboxinu, deili því með okkur hinum og það er aldrei að vita nema hægt verði að vekja jólasveininn í Skálafelli með einhverri saunglist.
Gangan hefst kl: 10.00. en þeir sem vilja, geta hist í Mörkinni 6 við húsakynni Ferðafélagsins og sameinast í bíla. Brottför úr Mörkinni 6 er kl. 09.00.
Hér er kort sem sýnir staðsetningu FÍ.
Um er að ræða 280 m hækkun á Skálafell á Hellisheiði og lengd göngu er um 8 km. fram og til baka.Gera má gera ráð fyrir að hópurinn verði aftur við bíla síðasta lagi milli kl. 14.00 - 15.00
Fararstjórar eru:
Örvar Aðalsteinsson 8993109
Ævar Aðalsteinsson 6965531
Ólafía Aðalsteinsdóttir 8622863
Einar Ragnar Sigurðsson 8998803
Pétur Ásbjörnsson 8987960
Sigrún Hallgrímsdóttir 6617746