Fjall mánaðarins í júlí er Tröllakirkja á Holtavörðuheiði.
Sjöunda ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 23. júlí.
Gengið verður á Tröllakirkju sem er 1001 m. hátt fjall vestan við Holtavörðuheiði. Tröllakirkju hafa flestir horft á þegar þjóðbrautin er ekin um Holtavörðuheiði en færri hafa gengið upp á fjallið þó ekki sé um langan veg að fara. Af Tröllakirkju sér víða um héruð í góðu skyggni enda eru sýslumörk þriggja sýslna á tindinum, Mýrasýsla, Strandasýsla og Dalasýsla mætast þar. Fjallið er byggt upp af basaltlögum 6-7 milljón ára gömlum og er mótað af rofi jökla. Í Tröllakirkju bjuggu tröll þursar við landnám. Þegar landsmenn tóku kristni og hófu að byggja kirkjur tóku þau að ókyrrast og flúðu flest norður á strandir. Tröllkona ein var eftir í fjallinu og reyndi að eiða mönnum og kirkju með því að grýta bjargi einu ógurlegu af fjallinu og niður að Stað í Hrútafirði þegar fyrst átti að messa þar. Ekki dró hún lengra en að hestaréttinni og drap þar nokkur hross. Hugsanlega eru þessar sögusagnir ástæða þess að flestir hraða sér yfir heiðina þegar þeir eiga þar leið um og leiða ekki hugann að því að ganga á fjallið. En nú verður breyting á. Við herðum upp hugann og mætum tröllkellu á hennar heimavelli. Gangan á fjallið er auðveld um gróið land en það getur verið nokkuð votlent á köflum. Búast má við snjósköflum efst en þeir verða ekki til trafala. Gangan hefst frá þjóðvegi 1 þar sem halla fer norður af háheiðinni, á milli Holtavörðuvatns og Grunnavatns. Við göngum vestur frá þjóðveginum yfir lægðina og smá hækkum okkur upp brekkurnar upp í skarð sem er sunnan við hæsta hnúkinn. Þaðan er haldið norður fjallið stuttan spöl á tindinn.
Upphafsstaður göngu er við þjóðveg 1 þar sem halla fer norður af hábungu Holtavörðuheiðar. Bílastæði þarf að reyna að finna þarna en örugglega er hægt að leggja bílum þar sem sæluhúsið stóð fyrrum á háheiðinni.
Ekinn er hringvegur 1 í gegnum Borgarnes og áfram upp Borgarfjörð áleiðis norður í land upp á Holtavörðuheiði.
Þar hefst gangan kl. 10.30. en þeir sem vilja geta hist í Mörkinni 6 við húsakynni Ferðafélagsins og sameinast í bíla. Brottför úr Mörkinni 6 er kl. 08.00.
Hér er kort sem sýnir staðsetningu FÍ.
Um er að ræða 700 metra hækkun og lengd göngu er um 12 km. fram og til baka.
Gera má gera ráð fyrir að hópurinn verði við bíla aftur um kl. 16 - 17.00.