Sjöunda ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2012 á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 7 júlí.
Hafnarfjall og nærliggjandi fjallasvæði er mjög skemmtilegt til fjallgangna. Fjallið og umhverfið er mótað af djúpum dölum og yfir þeim rísa fallegir tindar sem auðvelt er að ganga á. Flestir kannast við ökuleiðina undir skriðum Hafnarfjalls og hafa ekið þar á leið í Borgarfjörð. Fyrir austan skriðurunna hlíðina eru áhugaverðir hnúkar og tindar sem tengja má saman í hringferð. Hafnarfjall ásamt Skarðsheiði er hluti af nokkurra miljón ára gamalli megineldstöð sem er mikið rofinn af jöklum ísaldanna. Okkar gönguleið liggur frá dalsmynni sem er fyrir miðju fjallinu og farinn er nokkuð krefjandi gönguhringur eftir fjallsöxlum og hryggjum á milli tindanna.
Upphafstaður göngunnar er við Háumela vestan undir dalsmynni sem skiptir Hafnarfjallinu. Haldið er upp bratta skriðu Tungukolls 666 m. til norðurs og eftir að honum er náð má segja að mestu erfiðleikar göngunnar séu búnir því framhaldið er þægileg ganga hringinn í kring um dalinn sem gengur inn í Hafnarfjallið. Hringurinn er nokkuð þægilegur en það skiptast á hækkanir upp á hnjúka og tinda og lækkanir niður í skörð og á fjallsaxlir.
Fyrsta skriðan upp á Tungukoll er nokkuð brött og getur verið ofurlítið laus í sér en ef varlega er farið er þetta vel fært. Leiðin liggur á hæsta hnúkinn Gildalshnúk og áfram fram á tindinn sem er hæstur á vesturfjallinu ofan við Hafnarfjallsskriðurnar. Þaðan er brúnum fylgt niður að upphafsstað göngunnar aftur.
Ekið er Vesturlandsvegur áleiðis til Borgarnes. Rétt áður en komið er að Borgarfjarðarbrú er sveigt til hægri inn á veg til Andakíls og uppsveita Borgarfjarðar. Fljótlega er komið að slóða til hægri upp að fjallinu. Honum er fylgt og farið er í gegn um hlið og bílum lagt við slóðann eða á melum aðeins ofar.
Gangan hefst kl: 09.15. en þeir sem vilja, geta hist í Mörkinni 6 við húsakynni Ferðafélagsins og sameinast í bíla. Brottför úr Mörkinni 6 er kl. 08.00.
Hér er kort sem sýnir staðsetningu FÍ.
Hækkun upp á hæsta tind er 740m. Hækkun verður eitthvað meiri því farið er upp og niður á hnúka eftir gönguleiðinni.
Lengd göngu er um 10 - 11 km. öll leiðin.
Gera má gera ráð fyrir að hópurinn verði aftur við bíla mill kl. 15.00-16.00
Fararstjórar eru:
Örvar Aðalsteinsson 8993109
Ævar Aðalsteinsson 6965531
Ólafía Aðalsteinsdóttir 8622863
Einar Ragnar Sigurðsson 8998803