Strútur 937 m.
Stutt frásögn:
3. gangan á Strút.
Allt er þegar þrennt er, á okkar ferðum hér
af illviðri og þoku vel við njótum.
Því á milli ferða þornar varla á mér
og þessu öllu saman nú vér blótum.
Þátttakendur voru mættir að bænum Kalmannstungu fyrir ofan Húsafell kl: 11.00
Þaðan var ákveðið að hefja gönguna á Strút. 62 göngumenn lögðu af stað í lágskýuðu veðri og hægum vindi. Ekkert sá til fjallsins en eftir leiðbeiningum Ólafs bónda Kristóferssonar var auðvelt að finna bestu leiðina, upp með bæjargilinu og gamla veginn sem áður var farinn uppá Arnarvatnsheiði. Með GPS - punktinn á tind fjallsins var síðan fljótlega sveigt til austurs og stefnan tekin á vestur-öxl fjallsins. Ekkert sást til fjallsins og fljótlega komum við upp í svarta þoku en áfram var lítill vindur og allir hressir í hópnum. Eftir stutta kaffipásu í um 500 m hæð var haldið áfram. Enn þéttist þokan og nokkuð hvessti þegar komið var ofar í fjallið. Í þessu litla skyggni var lögð áhersla á að halda hópinn og var því farið rólega og stoppað nokkrum sinnum á leiðinni. Náðum við tindinum eftir 3 klst. göngu. Skyggni var ekkert og nokkur vindur svo ekki mikið annað að gera en að halda fljótlega aftur niður. Göngufélagar voru nú allir sammála því að í næstu ferð hlytu veðurguðirnir að verða okkur hliðhollir því allt er þegar þrennt er og þetta var þriðja ferðin í leiðinda veðri. Af fjallin mun samt vera allgóð útsýn svo einum göngumanna varð að orði:
Upp á Strútinn áfram brýst
með ógnarþungann poka.
Útsýn mikil er þar víst
ef ekki væri þoka.
Kom hópurinn aftur að Kalmannstungu um kl: 16.00 eftir tæpa 5 klst. ferð. Allir voru sammála því að ferðin hefði verið góð þó ekkert hefði verið skyggni. Hittumst næst 30 apríl og þá verður aftur farið í Borgarfjörðinn og gengið á Baulu.
Þriðja ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 26. mars.
Gengið verður á Strút sem er 937 m. hátt fjall hjá Kalmanstungu í Borgarfirði. Strútur er tignarlegt fjall ofan Reykholtsdals. Norðan og austan við Strút er Hallmundarhraun og Eiríksjökull. Fjallið er myndað úr móbergi á jökulskeiði síðla á ísöld.
Upphafsstaður göngu er við bæinn Kalmannstungu fyrir ofan Húsafell í Reykjoltsdal. Þaðan verður gengið upp suðvesturhluta fjallsins svokallaða Neðriöxl í jafnri göngu upp á tindinn. Af toppi fjallsins er víðáttumikið útsýni. Sést þar yfir Hallmundarhraun og til Eiríksjökuls. Til suðurs er Geitlandsjökull, Prestahnúkur, Þórisjökull og Kaldidalur.Einnig er víðáttumikið útsýni yfir Borgarfjörð allt til Snæfellsness.
Ekið sem leið liggur í Húsafell og best er að fara hjá Hafnarfjalli um Andakíl og upp í Reykholtsdal. Þegar komið er í Húsafell er haldið áfram yfir Hvítá og að bænum Kalmanstungu og þar hefst gangan kl. 11.00. en þeir sem vilja geta hist í Mörkinni 6 við húsakynni Ferðafélagsins og sameinast í bíla. Brottför úr Mörkinni 6 er kl. 9.00.
Hér er kort sem sýnir staðsetningu FÍ.
Um er að ræða 600 metra hækkun og lengd göngu er um 12 – 14 km. og má gera ráð fyrir að hópurinn verði við bíla aftur um kl. 15.00.
Fararstjórar verða: Örvar Aðalsteinsson, Ævar Aðalsteinsson, Ólafía Aðalsteinsdóttir, Linda Björnsdóttir, og Jóhanna Haraldsdóttir.
Kort af gönguleiðinni á Strút í Borgarfirði
GSM símar fararstjóra: