Nýtt og spennandi verkefni á vegum Ferðafélags barnanna, Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar, rúllar af stað 9. maí þegar gengið verður á Úlfarsfell.
Verkefnið er fyrir duglega fjallagarpa, krakka á öllum aldri og miðar að því að æfa sig og safna fjöllum.
Gengið verður á sex skemmtileg og ævintýraleg fjöll sem flestir krakkar hafa séð en kannski aldrei þorað að ganga á.
Þeir fjallagarpar sem ganga á öll fjöllin sex fá titilinn Fjallagarpur Ferðafélags barnanna og sérstakt viðurkenningarskjal til vitnis um það.
Dalla Ólafsdóttir, umsjónarmaður Ferðafélags barnanna, segir að fátt sé betur til þess fallið til að æfa kjark, þor og dug en að fara með krökkum í fjallgöngu.
„Það getur verið skrambi erfitt að koma sér af stað, oft óyfirstíganlegt í byrjun en þegar á toppinn er komið átta börnin sig á því að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. John Snorri Sigurjónsson og Vilborg Arna Gissurardóttir, fjallagarpar með meiru, ætla að koma með okkur í nokkrar göngur og gefa krökkunum góð gönguráð og segja frá spennandi ævintýrum á fjöllum. Hugsanlega sést til álfa eða trölla og ómissandi er að drekka ískalt vatn beint úr fjallalækjum,“ segir Dalla.
Gengið verður á lítil og stærri fjöll í nágrenni Reykjavíkur: Úlfarsfell, Helgafell, Móskarðshnúka, Mosfell, Þorbjörn og Esjuna. Dalla segir að fjallgöngurnar séu fyrir duglega krakka á öllum aldri sem langar að ganga hærra en skýin og standa á toppi tilverunnar.
Það má koma í eina fjallgöngu en líka hægt að mæta í allar og verða vottaður Fjallagarpur.
Fyrsta gangan verður á Úlfarsfell þann 9. maí nk. og verða farnar þrjár göngur í vor og snemmsumars en þráðurinn svo tekinn upp aftur að afloknu sumarfríi þegar gengið verður á þrjú fjöll í fallegum haustlitum.
Smellið á nöfn fjallanna fyrir nánari upplýsingar um hverja göngu.