Fjallakofinn styður Ferðafélag Íslands
Fjallakofinn og Ferðafélag Íslands hafa gert með sér samkomulag til þriggja ára. Með samstarfssamningi þessum styrkir Fjallakofinn myndarlega við starf Ferðafélags Íslands og þá sérstaklega sem lítur að ferðum og þann búnað sem þarf til ferða. Fjallakofinn útvegar fararstjórum FÍ MARMOT útivistarfatnað sem og veitir félagsmönnum FÍ veglegan afslátt af öllum vörum í Fjallakofanum, sem og býður þátttakendum í fjallaverkefnum FÍ og einstaka ferðum upp á sérstök vildarkjör.
Halldór Hreinsson framkvæmdastjóri Fjallakofans er mjög ánægður með samninginn sem nú hefur verið gerður; ,,Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur að styðja við allt það góða starf sem Ferðafélagið stendur fyrir sem t.d. hvað varðar fjallaverkefni Fí er nánast um lýðheilsustarf að ræða. Ferðafélag Íslands gefur fjölmörgum kost á því að stunda útivist, gönguferðir og fjallgöngur og njóta náttúrunnar um leið og fólk byggir upp þrek og heilsu. Það er frábært að geta boðið félagsmönnum FÍ og þeim sem taka þátt í verkefnum félagsins upp á okkar bestu kjör.
Samningurinn er til þriggja ára og fyrir liggja hugmyndir hvernig hægt verði að þróa og efla samstarfið enn frekar.
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að samningurinn sé afar góður fyrir FÍ og komi sér vonandi vel fyrir bæði félagsmenn og fararstjóra. ,,MARMOT býður fram afar vandaðan og góðan útivistarfatnað og við íslenskar aðstæður og veðurskilyrði þá er mikilvægt að vera í góðum fatnaði.“
Félagsmenn FÍ munu framvegis njóta 15 % afsláttar í Fjallakofunum sem nú eru tveir, annar á Laugavegi 11 í Reykjavík og hinn á Reykjavíkurvegi 64 í Hafnarfirði. Þá verða einnig send út sértilboð og hafa nú þegar verið send út sér tilboð til hátt í 400 þátttakenda í fjallaverkefnum FÍ.