Fjallaskálar vakna til lífsins

Fjallaskálar Ferðafélagsins eru nú smám saman að vakna til lífsins eftir veturinn og nóg að gera við að mála, hreinsa og standsetja.


Búið að hífa húsið upp á pall


Salernishús á ferð á Markarfljótsaurum

Skálaverðir eru búnir að vera í Langadal í Þórsmörk frá því í byrjun maí og þar eru vorverkin í fullum gangi. Verið er að mála það sem þarf að mála, laga vatnslagnir sem frusu, hreinsa greinar af göngustígum og laga girðingar og tré sem brotnuðu undan snjóþyngslum í vetur.

Meðal þess sem verið er að vinna í er að setja niður salernishús við dagsferðarhúsið/sjoppuna niðri við bílastæðið. Húsið var flutt frá Stóraenda í þessari viku og verður sett upp og tengt í næstu viku.

Í Þórsmörk er allt að verða grænt og gras að spretta í rigningunum þessa vikuna eftir mikla þurrka í maí. Umferð eykst með hverjum degi. Ágætis vöð eru á öllum ánum en vegurinn er frekar grófur. Fyrstu gistihóparnir í Þórsmörk í vor hafa verið skólahópar sem eru eins og farfuglarnir og koma hefðbundið með vorið í Mörkina.


Þyrla í Landmannalaugum

Í Landmannalaugum hefur verið skálavörður í allan vetur sem hefur staðið vaktina og séð um viðhald á skálunum og svæðinu. Færið er búið að vera gott inn í Laugar síðustu vikur og veðrið gott líka en umferð hefur þó verið öllu minni en í fyrra. Enn er fært á snjó inn í Landmannalaugar á snjósleðum og stórum jeppum en ekki er langt í að snjóinn taki það mikið upp að lokað verður fyrir umferð. Vegagerðin áætlar að opna veginn fyrir hefðbundinni umferð þegar leysingum líkur eða um 15. júní.


Kolaleifar við grill fyrir þrif


Allt spikk og span eftir vorhreingerningu

Fyrstu göngumenn á Laugaveginum kláruðu gönguna fyrir nokkru. Það voru útlendingar sem gengu frá Skógum og í Landmannalaugar og tjölduðu á leiðinni. Enn er mikill snjór á Laugaveginum og Fjallabaki og skálarnir í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og Emstrum verða ekki opnaðir fyrr en snjóa leysir og vegurinn opnar. Áætlað er að opna þessa skála 16. júní.


Laugin í Landmannalaugum fyrir þrif


Laugin eftir vorhreingerningu

Allar frekari upplýsingar um færð og bókun skála er hægt að fá á skrifstofu FÍ í síma: 568 2533.