Fantafæri og bjart veður einkenndi skemmtilega FÍ fjallaskíðaferð sem farin var á Eyjafjallajökul um síðustu helgi.
Gengið var með fjallaskíðin á bakinu upp hjá Grýtutindi, svokallaða Grýtutindsleið og svo upp með Skerjaleiðinni upp að og á Goðastein sem er hæsti tindurinn í norðanverðum Eyjafjallajökli.
Það gustaði vel á liðið á toppnum, þar sem frostið fór niður í -23°, að teknu tilliti til vindkælingar.
Frá Goðasteini var svo skíðað til norðurs vestan megin við Gígjökulinn, niður í svokölluð Smjörgil.
Aðstæður voru gríðarlega góðar, snjóað hefur á jökulinn síðustu daga svo að lausamjöll lá yfir öllu og skíðahópurinn, ríflega 30 manns, gat skíðað í góðu færi alla leið niður á tún.
Fararstjórarnir Tómas Guðbjartsson, Helgi Jóhannesson, Jón Gauti Jónsson og Hilmar Már Aðalsteinsson fóru fyrir hópnum, pössuðu upp á öryggið og leiddu alla heila heim aftur.