Ungmennaverkefni er áherslumál, segir forseti FÍ:
Fjallaskóli FÍ fyrir unga fólkið
Mikil áhersla eru um þessar mundir lögð á að efla starf fyrir ungmenni Ferðafélags Íslands. Starfið hefur löngum verið fjölbreytt, en nú er kostað kapps að ná til nýrra hópa á fjölbreyttari hátt en áður. Okkur er mikið kappsmál að ná til unga fólksins. Höfum því ákveðið að fara af stað í sumar með ungmennaverkefni með ýmiskonar fræðslu og ferðalögum og væntum mikils af því, segir Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ.
Um fjöll og firnindi
Ungmennaverkefnið hefur fengið vinnuheitið Fjallaskóli FÍ. Sérstakur starfsmaður mun sinna þessu verkefni, svo sem fræðslunni þar sem fjallað verður um hugmyndafræði útivistar og fjallamennsku og félagslega þáttinn í því sambandi, náttúruna, búnað, öryggisatriði og fleira slíkt. Fræðslan fer fram í mai og september í skála Ferðafélagsins í Langadal í Þórsmörk þaðan sem verður svo lagt upp í gönguferðir upp um fjöll og firnindi. Jafnframt er stefnt að því vekja áhuga ungs fólks sérstökum ferðum á vegum FÍ sem eru sniðnar að þess óskum og þörfum. Ungmennum hefur sl. tvö ár verið boðin innganga í félagið fyrir mjög hóflegt árgjald og þá er í boði sérstök fjölskylduaðild. Fyrirmyndin að því er sótt til norska ferðafélagsins, en félögin ytra og hér heima eru áhugasöm um að efla samstarfið sín í millum.
Góður félagsskapur
Við munum kynna starf okkar með unga fólkinu fyrir sveitarfélögum hér á höfuðborgarsvæðinu og þá helst í gegnum skólakerfið. Fjallamennska er tómstundagaman sem verðskuldar stuðning, segir Ólafur Örn sem verður fararstjóri í ýmsum ferðum á vegum FÍ í sumar. Má þar meðal annars nefna ferðir um frá Hvítárnes að Laugarvatni um nýju brúna yfir Farið, Jarlhettugötu eins og leiðin er gjarnan nefnd í dag.
Ólafur Örn segir að nú, þegar á móti blási, sé kjörið að taka þátt í starfi félagasamtaka og áhugamannafélaga á borð við Ferðafélag Íslands. ,,Innan félagsins er boðið upp á fjölbreytt félagsstarf, námskeið af ýmsu tagi og ekki síst góðar gönguferðir og félagsskap. Það eru fjölmargir sem kjósa nú að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi, t.d. með þátttöku í vinnuferðum í skála FÍ og það eru allir velkomnir í Ferðafélagið, segir Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ.