Fjallaverkefni FÍ á nýju ári

Ferðafélagar á Geitafelli á góðum degi
Ferðafélagar á Geitafelli á góðum degi

Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjalla- og hreyfihópum sem allir eiga það sammerkt að vera lokuð verkefni sem ganga út á reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap. 

Meginmarkmið þessara hópa er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum. 

Taktu fyrsta skrefið, farðu alla leið, ertu léttfeti, fótfrár eða þrautseigur eða svalur á fjöllum. Jólagjöfin í ár til ferðafélagans, upplifun og ævintýri á fjöllum, gjafabréf FÍ. 

Verkefnin sem í boði verða eru: 

FÍ Alla leið

Fjallaverkefnið Alla leið er æfingaáætlun sem miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum, sem stigmagnast að erfiðleikastigi, alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur og svo vikulegum þrekæfingum. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Haustgöngur Alla leið sem stendur til áramóta.

Umsjónarmaður er Hjalti Björnsson.

Kynningarfundur: Þriðjudaginn 9. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6.  

FÍ Fyrsta skrefið og Næsta skrefið

Fyrsta skrefið byggist á reglubundnum göngum á þægileg fjöll. Gengið er á mismunandi fjöll einu sinni í viku og alltaf á Úlfarsfell á fimmtudögum. Farið er á hraða sem hentar hópnum og þrek fólks er smám saman byggt upp. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Næsta skrefið sem hefst í september og stendur til áramóta.

Umsjónarmenn eru Reynir Traustason, Ólafur Sveinsson , Auður Kjartansdóttir og Bjarney Gunnarsdóttir. 
Kynningarfundur: Fimmtudaginn 4. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. 

FÍ Léttfeti. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, auðveldum fjallgöngum inn í dagatalið sitt. Farið er í 12 fjallgöngur, yfirleitt fyrsta laugardag í hverjum mánuði út árið. Fjöllin sem fyrir valinu verða eru í léttari kantinum.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson.
Kynningarfundur: Fimmtudaginn 11. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6.

FÍ Fótfrár. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi. Alls verður gengið á 12 fjöll, yfirleitt þriðja laugardag í hverjum mánuði út árið. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson.
Kynningarfundur: Fimmtudaginn 11. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6.

FÍ Þrautseigur. Tvö fjöll á mánuði

Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan og ganga þá á alls 24 fjöll yfir árið, yfirleitt bæði fyrsta og þriðja laugardag í hverjum mánuði. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi því bæði er gengið á létt og krefjandi fjöll.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson.
Kynningarfundur: Fimmtudaginn 11. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6.

Svalir á fjöllum

FÍ Svalur á fjöllum NÝTT

Þetta gönguverkefni er fyrir alla foreldra og unglingana þeirra þar sem markmiðið er að skapa gæða samverustundir í gönguferðum úti í náttúrunni. Það er gaman að ganga í hópi með öðrum, spjalla og sprella og deila reynslusögum. Frábær undirbúningur fyrir fjallamennsku og útivist. Fræðsla um búnað og nesti, hvernig á að pakka, ganga með bakpoka, vaða ár og hita súpu uppi á fjalli. Hópurinn gengur annan hvorn laugardag frá janúar fram í maí, á lág fjöll í nágrenni Reykjavíkur til að byrja með.

Umsjónarmenn eru mæðginin Hanna Gréta Pálsdóttir og Aron Freyr Stefánsson ásamt Írisi Sæmundsdóttur.
Kynningarfundur: Miðvikudaginn 24. janúar kl. 18 í risi FÍ, Mörkinni 6.