Um áramót stígum við á stokk og strengjum þess heit að bæta okkur á margs konar máta. Bestu áramótaheitin sameina góðan félagsskap og heilnæma hreyfingu.
Fjalla- og hreyfihópar FÍ uppfylla einmitt þessi skilyrði og margir þessara hópa hefjast núna eftir áramót. Kynningarfundir hefjast strax í næstu viku, sjá hér að neðan.
Afmælisár
Næsta ár er að auki afar merkilegt ár fyrir Ferðafélag Íslands. Félagið var stofnað 1927 og verður því 90 ára árið 2017. Framundan er því afmælisár með tilheyrandi afmælisferðum og fagnaði.
Ferðaáætlun FÍ 2017 dregur dám af afmælisárinu og er afar fjölbreytt og skemmtileg. Áætluninni verður dreift til félagsmanna 6. janúar og bókanir í ferðir hefjast 9. janúar.
Sjá nánari dagskrá allra fjalla- og hreyfihópa FÍ hér.
Aftur af stað
Aftur af stað er endurhæfingarverkefni FÍ, sérstaklega hugsað fyrir þá sem vilja fara af stað í hreyfingu og útiveru eftir veikindi, slys, meiðsl eða langvarandi hreyfingarleysi. Aðaláherslan er á göngur á jafnsléttu auk þess sem gerðar eru ýmsar liðkandi æfingar ásamt stöðu- og styrktaræfingum.
Gengið er á mánudags- og miðvikudagskvöldum á mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Þriðja hvern laugardag er svo farið í létta fjallgöngu. Innifalið í verkefninu eru líka reglulegir sundleikfimitímar og jóga. Verkefnið er einstaklingsmiðað og mikil áhersla lögð á að hver og einn finni sinn hraða. Verkefnið varir í fjóra mánuði, hefst mánudaginn 16. janúar og lýkur mánudaginn 15. maí.
Umsjónarmenn eru Bjarney Gunnarsdóttir og Steinunn Leifsdóttir.
Kynningarfundur: Fimmtud. 12. janúar kl. 20 í risi FÍ, Mörkinni 6. Verð: 68.000.
Alla leið
Ferðafélag Íslands býður upp á æfingaáætlun sem miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum, sem stigmagnast að erfiðleikastigi, alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur og svo vikulegum þrekæfingum.
Þátttakendur velja að ganga á eitt af fjórum eftirtöldum fjöllum: Eyjafjallajökul (þveraður frá Grýtutindi að Seljavöllum) 6. maí, Hrútsfjallstinda 20. maí. Hvannadalshnúk 3. júní og Birnudalstind 17. júní. Ef illa viðrar uppgönguhelgarnar gæti farið svo að göngunum yrði frestað um viku. Athugið að í boði er að ganga á alla fjóra tindana gegn aukagjaldi.
Umsjónarmaður er Hjalti Björnsson.
Kynningarfundur: þriðjud. 10. janúar kl. 19:45 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 58.600.
Eitt fjall á mánuði - Léttfeti
Þetta verkefni er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, rólegum fjallgöngum inn á dagatalið sitt. Farið er í 12 fjallgöngur, yfirleitt fyrsta laugardag í hverjum mánuði út árið. Fjöllin sem fyrir valinu verða eru í léttari kantinum. Meðal annars verður gengið á ýmsa tinda í Esjunni, Ingólfsfjall og Keili.
Umsjónarmenn eru Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Hámarksfjöldi er 50.
Kynningarfundur: Miðvikud. 4. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 63.600.
Eitt fjall á mánuði - Fótfrár
Þetta verkefni er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi. Alls verður gengið á 12 fjöll, yfirleitt þriðja laugardag í hverjum mánuði út árið. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi. Meðal annars verður gengið á ýmsa tinda í Esjunni, Baulu og Þórisjökul.
Umsjónarmenn eru Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Hámarksfjöldi er 50.
Kynningarfundur: Miðvikud. 4. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 63.600.
Eitt fjall á mánuði - Þrautseigur
Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan og ganga þá á alls 24 fjöll yfir árið, yfirleitt bæði fyrsta og þriðja laugardag í hverjum mánuði. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi því bæði er gengið á létt og krefjandi fjöll.
Umsjónarmenn eru Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Hámarksfjöldi er 50.
Kynningarfundur: Miðvikud. 4. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 73.600.
Fyrsta skrefið / Næsta skrefið
Í verkefnunum Fyrsta skrefið og Næsta skrefið er gengið á fjöll einu sinni í viku. Verkefnið er hugsað fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin í fjallgöngu þar sem áhersla er lögð á að ganga rólega á létt og þægileg fjöll. Verkefnið hentar einnig öllum fjallageitum sem vilja ganga rólega og njóta útiveru og góðs félagsskapar. Sérstök áhersla er á að njóta en ekki þjóta. Í ferðunum er fræðsla, söngur og æfingaprógrammið Haukurinn er ómissandi. Fyrsta skrefið er vorverkefni sem stendur frá byrjun janúar til maí. Næsta skrefið er haustverkefni sem stendur frá september til desember.
Umsjónarmenn eru Reynir Traustason, Ólafur Sveinsson og Auður Kjartansdóttir.
Kynningarfundur: Fimmtud. 5. janúar kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 57.600.
Skráðu þig inn – drífðu þig út