Fjaran - gósenland - með fróðleik í fararteskinu

Með fróðleik í fararnesti – gönguferðir Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands

Á aldarafmæli Háskóla Íslands taka skólinn og Ferðafélag Íslands höndum saman og standa fyrir gönguferðum reglulega yfir afmælisárið. Reynsla og þekking leiðsögumanna ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess.

Gönguferðirnar verða 12 talsins og taka hver um 2 klukkustundir.

Markmið samstarfs Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands er að færa almenningi afmælisgjöf sem felst í fræðslu og hollri útivist. Um leið er vakin athygli og áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands. Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.  Ekki þarf að skrá sig fyrirfram

Fjaran – Gósenland

14. maí mun Guðrún Hallgrímsdóttir verkfræðingur og fulltrúi í háskólaráði Háskóla Íslands leiða göngu um fjörur á Álftanesi. Hugað verður að fjörunytjum og rifjuð upp þýðing þangs, fjörudýra og fjörugróðurs í fæðunni. Jafnframt verður litið eftir komu farfugla og margæsin sérstaklega boðin velkomin. Upphafspunktur ferðarinnar er við Bessastaðakirkju kl. 11:00, síðan verður farið á aðrar fjörur og ekið á milli.