Fjölmenni á Hvannadalshnúk og nágrenni

105 þátttakendur í 52 fjalla verkefni Ferðafélags Íslands gengu á Hvannadalshnúk um helgina í logni og sólskini. Göngumenn komu niður alsælir í sigurvímu eftir einstaklega vel heppnaða ferð í besta hugsanlega veðri og góðu færi.
Fyrirtækið Jöklamenn eða Glacier Guides annaðist fararstjórn í leiðangrinum í samvinnu við þá fimm fararstjóra FÍ sem fylgt hafa hópnum í vetur. Páll Ásgeir Ásgeirsson verkefnisstjóri 52 fjalla hópsins sagðist í samtali við heimasíðu FÍ vera afar ánægður með frammistöðu sinna manna allra og samstarfið við Jöklamenn.
Auk þessa var hópur  frá Ferðafélagi Íslands á Þverártindsegg svo í heild var þetta með allra stærstu helgum á vegum FÍ á árinu.
Háfjöll önnur en Hvannadalshnúkur njóta vaxandi vinsælda og á tindum Öræfajökuls og í nágrenni var fjöldi smærri og stærri hópa um helgina og haft var við orð að Öræfajökull hefði verið eins og stór mauraþúfa. T.d. var vitað um alls 56 manns á Miðfellstindi í Skaftafellsfjöllum sem nýtur vaxandi vinsælda enda geysifagurt og krefjandi fjall.