Fjölmennt á Heiðarhorni

25 manna hópur á vegum Ferðafélags Íslands gekk á Heiðarhorn á Skarðsheiði laugardaginn 7. nóvember. Ákvörðun um þessa ferð var tekin í skyndingu tveim dögum áður þegar veðurspá leit sérlega vel út. Þeir sem gripu tækifærið urðu ekki fyrir vonbrigðum því veður var stillt, kalt og heiðskírt  en vægur norðan andvari á efsta tindi.
Útsýni af Heiðarhorni er geysilega gott og sér vítt yfir fjöll við Faxaflóa, Borgarfjörð, Snæfellsnes og inn til jökla.
Heiðarhornið er 1060 metra hátt og var talsvert hrímað en ekki þó svo að tefði för göngumanna. Ofan af hæsta tindi var gengið fram á Skarðshyrnu og þaðan ofan af henni til vesturs og niður til bæja um hina fögru Skessubrunna undir hamraþiljum Skarðshyrnunnar. Hópurinn hóf göngu kl. 11.00 og komið var aftur að rútu kl. 17.00 í þeirri alsælu sem aðeins fallegur dagur á fjöllum í fögru veðri með kátum hópi getur kallað fram.

Fararstjórar voru Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.


Heiðarhorn 1

Göngugarpar hefja för frá Efra-Skarði og stefna á Heiðarhorn.

Heiðarhorn 2

25 göngugarpar á toppi Heiðarhorns á laugardaginn.