Ferðafélag Íslands efnir til fjölskyldu- og bjartsýnisgöngu á sunnudaginn 19.okt kl. 14.00. Þetta verður létt ganga eftir göngustígum upp í hlíðar Esju og verður lagt upp frá bílaplaninu við Mógilsá og síðan verður boðið upp á veitingar þegar komið er aftur niður. Þegar vandi steðjar að er fátt betra en að ganga með fjölskyldunni eða í góðra vina hópi úti í íslenskri náttúru. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir að taka þátt í þessari fjölskyldu- og bjartsýnisgöngu Ferðafélagsins.
Reyndir fararstjórar verða í göngunni og enginn þarf að fara lengra en hentar hverjum og einum. Göngutíminn er því alveg að vali hvers og eins, allt frá því að rölta upp í skóginn til göngu á fjallið sjálft. Stígarnir neðst upp frá bílaplaninu eru breiðir og sléttir og hverjum fullfrískum manni og börnum færir. Við hvetjum fólk til að klæða sig vel og hafa góða skó á fótum. Veitingarnar verða heitt kakó og bakkelsi og þá gefst tími til að spjalla saman áður en haldið er heim.
Hittumst full af bjartsýni og baráttuanda við Esjurætur kl. 14.00 á sunnudaginn 19.október.