Ferðafélag barnanna stendur fyrir fjölskylduhátíð í Heiðmörk laugardaginn 15. ágúst. Hátíðin er haldin í þeim tilgangi að gefa börnum tækifæri á að upplifa töfra náttúrunnar og kynnast þessu stórkostlega útivistarsvæði í nágrenni. höfuðborgarsvæðisins. Hátíðin, sem fer fram milli kl. 14:00-16:00, er öllum opin.
Fjölbreytt dagskrá verður í boði og hefst hún í Þjóðhátíðarlundinum í Heiðmörk kl. 14:00 þar sem Ingó úr Verðurguðunum kemur öllum í stuð. Fararstjórar Ferðafélagsins verða með gönguferðir um svæðið og íþróttakennarar sjá um leiki fyrir börnin og kynna nýjan ratleik. Þá mun Sölufélag garðyrkjumanna gefa gestum að smakka nýupptekið íslenskt grænmeti.
Klukkan 14:30 verður fyrsta Íslandsmeistaramótið í gúrkuáti sett, en þar verður keppt um það hver er fljótastur að torga heilli gúrku. Keppt verður í tveimur aldursflokkum, 6-9 ára og 10-12 ára. Sigurvegarinn hlýtur titillinn Íslandsmeistari í gúrkuáti 2009. Skráning í mótið fer fram á staðnum.
Ferðafélag barnanna var stofnað 22. júní síðastliðinn af Ferðafélagi Íslands og er markmið félagsins að stuðla að heilbrigðri útivist fyrir fjölskyldur í náttúru landsins. Félagið leggur mikla áherslu á að bjóða upp á ferðir og uppákomur á forsendum barnanna með það fyrir augum að víkka sjóndeildarhring þeirra og upplýsa um heilbrigða lífshætti úti í náttúrinni
Aðalbakhjarl Ferðafélags barnanna er Nýja Kaupþing.