10.08.2010
Laugavegsganga FÍ Fjölskylduferð Ferðafélags Íslands 27.-31. júlí 2010.Skrásett af Margréti Halldórsdóttur og Magnúsi Jónssyni, ömmu og afa Margrétar Halldórsdóttur 9 ára og Magnúsar Símonarsonar 9 ára. Örlítill inngangurAmma og afi gengu Laugaveginn með Kjartani, bróður Magnúsar sumarið 2005, almenna trússferð, Kjartan var 9 ára og ferðin tókst svo vel að amma vildi endurtaka leikinn með næstu tvö barnabörnin. Það bar því vel í veiði þegar Ferðafélagið auglýsti fjölskylduferð í tengslum við Ferðafélag barnanna. Amma skráði liðið sitt í ferðina og eftirvæntingin hlóðst jafnt og þétt upp. Krakkarnir gistu hjá ömmu og afa nóttina fyrir brottför því mæting var í Mörkina kl. 8.00 um morguninn og eins gott að ekkert færi útskeiðis. Um kvöldið var farið vandlega yfir gönguáætlun og útbúnaðarlista, enda áríðandi að ekkert vantaði. Spenna og eftirvænting magnaðist eftir því sem á leið en allir sváfu vel og vöknuðu snemma og það þurfti sko ekki að minna neinn á að taka góða skapið með í ferðina. Fyrsti dagur: Landmannalaugar – Hrafntinnusker.Ferðafélagarnir voru mættir tímanlega og frá fyrstu stundu var ljóst að hér var flottur hópur á ferð: Fararsjórarnir Fríða og Þórður með Katrínu 12 ára og Magnús 10 ára, Kristinn með Jökul 13 ára, Ása og Björn Þór með Sólveigu 12 ára og Ásþór 8 ára, Hrefna með Jóhannes 8 ára og við. Kría 13 ára dóttir Halldórs trússara, bættist í hópinn í Landmannalaugum. Samtals 17 manns, 8 fullorðnir og 9 krakkar. Á leiðinni sagði Fríða söguna af Ólafi bryta í Skálholti og lyklunum sem hann týndi við Lyklafell á Mosfellsheiði og hljóp síðan upp í Ólafsskarð þar sem hann varð úti. Frásögnin minnir okkur á, að á Íslandi er sagan við hvert fótmál og að við þurfum ekki endilega að fara í margra daga gönguferð til að eiga góðar stundir á fjöllum, en jafnframt að ávalt skal fara varlega og vera vel búinn. Eftir ís- og slikkstopp á Selfossi og aftur á Landmótum vorum við fyrr en varir komin í óbyggðir. Búrfell og Hekla blöstu við þótt skyggni væri ekki upp á það besta. Ýmsar spurningar féllu um landslag, veður og fleira, eins og til dæmis „hvað borða flugur“ sem enginn gat auðveldlega svarað. Á leiðinni var stoppað við minnismerki um „sómadreng“, Bjarna Einarsson, sem fórst þar í snjósleðaslysi 2005. Þar sem við gengum um sá Margrét yngri eitthvað sérkennilegt fyrir utan veg og viti menn hún fann þennan forláta Blackberry síma. Fríða kunni á tæknina, gat hlaðið símann og haft upp á eigandanum, sem hafði týnt honum fyrir tíu dögum, en ekki þarna heldur í Landmannalaugum. Ákveðið var að koma símanum til skila á Hvolsvelli á heimleiðinni. Við komum í Laugar uppúr kl. 12.00, sumir fóru í heitu laugina, sumir í fótbolta og frissby en aðrir nutu þess að vera komnir á upphafspunkt gönguferðarinnar. Eftir upphitun og nafnaleik var haldið af stað í blíðskaparveðri. Nú vissu allir hvað hver hét og voru til í tuskið. Fyrst var gengið um úfið Laugahraun og á aurunum við Vondugil veltum við fyrir okkur af hverju gilin hétu slíku nafni án þess að nokkur niðurstaða fengist. Brennisteinsalda er eitthvert litskrúðugusta fjall landsins, skrýtt ljósum en skærum litum; gulum, rauðum, brúnum, bleikum og gráum. Rauði hveraleirinn er sérlega litsterkur og hentar vel sem stríðsmálning og eins guli leirinn við Stórahver. Eftir nokkur hvell stríðsöskur var kominn tími til að fá sér nesti. Það var ekki sökum að spyrja, við vorum ekki fyrr búin að taka fram nestið, „snökkin og nömmin“ að það fór að hellirigna, þrátt fyrir spá um sól í heiði. En hvað um það hugsuðum við öll, og hvað um það, ekkert breyttist og sól var i sinni. Ekki leið á löngu þar til við vorum komin upp á Hrafntinnuskerssvæðið og í dumbungnum glitraði gljáandi hrafntinnan í sandinum svo langt sem augað eygði, eins og eyðimörk full af eðalsteinum. Nú var stutt í skála FÍ í Hrafntinnuskerjum. Halldór var kominn með trússið og hafði líka hellt upp á kaffi fyrir follorðna fólkið. Fyrsta göngudegi var lokið, 12 km að baki og 470 m hækkun. Enginn kvartaði yfir þreytu eða leiða, en í ljós kom að tveir „laumufarþegar“ voru með í för, Sibba, lítill grænn tuskufroskur í bakpoka Katrínar og Hulda Margrét, hundsskinn í bleikum buxum í pússi Margrétar yngri. Fyrir kvöldmat nudduðu fullorðnir hvern annan, samkvæmt nuddkerfinu „4x4 á fjöllum“ en krakkarnir fóru í fótbolta og frissby. Matarinnkaup önnur en morgunmatur og nesti voru miðuð við sameiginlegan kvöldverð og nú voru hendur látnar standa fram úr ermum. Spagetti Bolognese eins og best verður á kosið, vel var tekið til matar síns, hvort sem spagettið var hvítt eða spelt. Spil, yatsee og skák voru tekin fram, Ásþór og Jóhannes, yngstu ferðalangarnir, voru vel liðtækir í skák og að lokum sofnuðu allir þreyttir og sælir eftir góða dag. Annar dagur: Hrafntinnusker - Hvanngil.Eftir morgunmat var tekið til nesti fyrir daginn. Veður var fallegt, sól og sumarylur. Fríða, Kristinn, Ása, Björn Þór og Magnús afi notuðu tækifærið og gengu upp á Söðul (1122 m), þaðan blasir við mikil og stórfengleg fjallasýn. Uppúr kl.10.00 eftir teygu- og yogaæfingar var lagt í hann. Auðnin býr yfir miklum töfrum, litadýrðin einstök og ótal gufustrókar stigu upp úr smáhverum. Í giljunum voru enn snjóalög en grátt öskulag úr Eyjafjallajökli minnti okkur á hamfarir vorsins. Eftir að hafa farið upp og niður nokkrar brekkur þar sem krakkarnir nutu þess að subba sig út og renna sér á blautum leirnum komum við fram á fallega klettaborg. Þar undir Kaldaklofsfjöllum, höfðu aðrir ferðalangar skilið pokana sína eftir og gengið upp á nafnlausan hnjúk, næst okkur, eða Háskerðing aðeins fjær en við létum okkur nægja að njóta útsýnisins frá klettaborginni. Þar voru teknar flottar fjölskyldumyndir og myndir af hausum, hári og höndum. Við tókum fram nestið og það var eins og við manninn mælt, flóðgáttir himinins opnuðust. Við héldum áfram og í stóru gili, hálffullu af snjó stóðum við af okkur rigninguna í fallegum íshelli. Það stytti upp og þegar farið var um Jökultungur og Svartahrygg breytti landslagið um svip, litríkir hverir og líparítfjöll voru að baki og framundan örlaði á gróðri. Útsýnið yfir Álftavatn var ægifagurt þótt nokkuð dimmt væri yfir. Við Grashagahvísl undir Jökultungunum tókum við fram vaðskóna og þótt við leiddumst hönd í hönd, tvö og tvö saman var það vissulega mikil þrekraun fyrir stutta fætur að vaða ískalda ána upp í klof. Við Álftavatn var aftur nestisstopp, fullorðnir hvíldu lúin bein en krakkarnir fóru í fótbolta, frissby og könnunarferðir. Halldór trússari var mættur og ætlaði að leggja net um kvöldið og kanna, hvort hann gæti boðið upp á silung í forrétt daginn eftir. Okkur gekk greitt að fara seinustu 5 km að Hvanngili, komum nokkuð blaut í hlað en öll aðstaða í skálanum var til fyrirmyndar og við gátum þurrkað blautan yfirfatnað. Nokkuð löng dagleið var að baki, samtals 17 km en lækkun 490 m. Tortillas með kjúklingi, grænmeti og tilheyrandi sósum smakkaðist fjarska vel og allir borðuðu með góðri list. Um kvöldið var mikið um að vera og spilamennska í heiðri höfð, það vakti óskipta athygli hversu glúrinn Ásþór var í Black Gammon. Þriðji dagur: Hvanngil – Botnar í Emstrum. Fastir morgunliðir eins og venjulega, en við tókum það samt rólega, spáin var ekkert of góð og ákveðið var að leggja ekki af stað fyrr en uppúr hádegi. Þetta var rétt ákvörðun og eftir góðan sameiginlegan hádegisverð, afganga frá deginum áður, var haldið af stað. Nokkuð hvasst var í fyrstu og örlítil rigning en fljótlega rættist úr veðrinu og áður en varði vorum við komin að göngubrúnni á Kaldaklofskvísl og þökkuðum fyrir að þurfa ekki að vaða djúpa á með svo illu nafni. Fljótlega var komið að Bláfjallakvísl og vaðskórnir teknir fram en hún var enginn farartálmi. Á leiðinni framundan hófst „keppnisdagurinn mikli“. Undir Stórusúlu og Súluhrygg var mörkuð um það bil 20 m braut þar sem fram fór metnaðarfull tískusýning, „Dressman keppnin“. Hver fjölskylda hafði sitt „show“, en Hrefna og Jóhannes voru í liði með Kristni og Jökli. Dómari gat þess að hefja skyldi leik með pokana á bakinu en eitt liðið misskildi þessa kvöð og fékk víti fyrir, að öðru leyti tók dómarinn fram að frumlegheit væru metin að verðleikum. Dómara var mikill vandi á höndum en hann hikaði ekki að velja „Fjögur Emm“ flokkinn í fyrsta sæti við misjafnar undirteknir annarra keppanda, vægast sagt. Undir brúnni á Nyrðri-Emstruá er fallegur foss og hrikalegt gljúfur og á eyrunum breiðir Eyrarrósin úr sér, í allri sinni litadýrð. Þar áttum við nestisstopp og Kría kom á ný í hópinn. Framundan voru tveir Útigönguhöfðar og lá leiðin á milli þeirra. Keppnisíþróttir voru rétt að byrja. Á söndunum með Stórkonufell í austri og Hattfell í vestri var markaður 30 m keppnisvöllur og skipt í lið í brennubolta. Fyrst var keppt í blönduðum liðum, „gulir“ og „rauðir“, höfðingi gula liðsins var Kristinn en Magnús yngsti þess rauða. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar hinir rauðu fögnuðu sigri að lokinni snarpri keppni. Næst kepptu yngri á móti eldri og það var ekki sökum að spyrja, hinir yngri fóru með frækilegan sigur af hólmi. Seinasti leikurinn var æsi spennandi, strákar á móti stelpum og allt ætlaði vitlaust að verða í karlaliðinu þegar þeir tryggðu sér sigur á lokamínútunum. Ótrúlega spennandi en drengilegri keppni var lokið og á engan er hallað þótt þess sé getið að þróttur og keppnisskap systkinina Katrínar og Magnúsar hafi vakið verðskuldaða athygli. Ekki leið á löngu þegar þetta kappsfulla og keppnisglaða lið stóð á brúninni fyrir ofan skálann í Botnum, neðan hans rann sprækur lækur um gróskumikinn hvannagróður. Vegalengd dagsins var 11 km og lækkun um 40 m. Enn og aftur áttum við lúxusmáltíð í vændum, Gríms-fiskibollur með lauk, kartöflum, kúskus og öðru meðlæti en punkturinn yfir i-ið var steiktur silungur sem Halldór hafði veitt í Álftavatni, algjört sælgæti. Um kvöldið fóru flestir hinna fullorðnu í kvöldgöngu að hinum hrikalegu Markarfljótsgljúfrum, sem eru allt að 180 m djúp. Jökull var í þeim hópi og stóð sig vel en hinir krakkarnir voru heima og kepptu í yatsee. Jóhannes sigraði í tvísýnni keppni og mestu munaði um 50 stiga bónus sem hann fékk. Fjórði dagur: Botnar í Emstrum – Þórsmörk. Það óhapp átti sér stað rétt fyrir brottför í síðasta áfangann að fingur Margrétar yngri klemmdist illa þegar hún ætlaði að koma „laumufarþega“ sínum fyrir í trússbílnum. Þetta leit ekki vel út en Fríða hjúkraði henni vel og batt um puttann. Margréti stóð til boða að fara í Þórsmörk í trússbílnum með Halldóri, en hún þurfti sjálf að ákveða það. Labba“ svaraði sú litla skýrt og ákveðið og þá var haldið af stað. Ekki leið á löngu þar til hópurinn var kominn að Syðri-Emstruá, leiðin að göngubrúnni lá niður brattan krummastíg, sem ekki er fyrir lofthrædda þótt reipi séu til halds og trausts. Einn fullorðinn og einn krakki fylgdust að og gangan yfir gljúfrið gekk fljótt og vel fyrir sig. Sunnan ár lá leiðin upp á Langháls og áfram meðfram ármótum Markarfljóts og Syðri-Emstruár. Útsýnið á gljúfurbarminum er mjög tilkomumikið og víða einstakar stuðlabergsmyndanir. Næst var farið um svokallaða Almenninga, yfir Slyppugil og Bjórgil. Landið fór að breytast og nú fór að bera á birkitrjám og blómum. Sú hugmynd kviknaði og var strax hrint í framkvæmd, að það gæti verið skemmtileg keppni og samvinna að skipta hópnum í þrjú lið sem hvert um sig tíndi blóm og jurtir í plastpoka. Þegar í Þórsmörk væri komið væri afraksturinn lagður á borð og greindur samkvæmt Blómabókinni hennar Sólveigar og veitt verðlaun. Keppnisskapið var gríðarlegt og Magnús yngsti tók ekki annað í mál en að sveppir væru skilgreindir sem blóm. Ekki leið á löngu áður en komið var að síðasta brattanum í ferðinni og gengið upp og niður Kápu. Þar kann Steinfinnsstaðir, bær landnámsmannsins Steinfinns Reyrketilssonar að hafa staðið en það er önnur saga. Þegar við komum niður af Kápu var komið að Þröngá og það var ekki mikið mál fyrir „vant fólk“ að vaða hana. Um Hamraskóga var stuttur spölur inn í Langadal í Þórsmörk. Það var eins og að koma í aldingarðinn Eden að ganga inn í grænt laufskrúðugt skóglendið svo mikil voru viðbrigðin frá söndum og gróðurlitlu hálendinu að Fjallabaki. Skreytingarnefnd tíndi blóm fyrir kvöldverðarborðið. Skagfjörðsskáli tók vel á móti okkur. Halldór var búinn að kveikja á grillkolunum og stutt var í að kjötið væri tilbúið. Um kvöldið, áður en gengið var til svefns, göntuðust krakkarnir mikið um draugagang í skálanum, þessi og hinn hafði dáið í þessari og hinni kojunni, á rúmfjalirnar höfðu verið skrifaðar allskonar orðsendingar og skilaboð að handan, andaglös teiknuð og fleira í þeim dúr. Ekki var laust við að sumir yrðu smeykir og vildu helst sofa í tjaldi þessa nótt, Mangús yngsti spurði þá kotroskinn „trúið þið þessari vitleysu“ og við það sat. Seinasta dagleiðin var 15 km og lækkun 300 m, samtals hafði þessi vaski hópur því gengið 55 km, hvorki meira né minna. Fimmti dagur: Heimför. Síðasta morguninn var allt með rólegu móti, og þó, stærsti hluti hópsins hélt upp í Snorraríki og spreytti sig í klifurfimi. Halldór pabbi Margrétar yngri, sem hafði komið kvöldið áður til að taka á móti dóttur sinni, kleif fyrstur þverhníft bergið upp í hellinn hans Snorra, næstur sýndi Magnús í miðið mikla klifurfærni og komst upp, þar næst Jökull, svo Kristinn, Björn Þór og að lokum Magnús afi sem stóðst ekki eigin eggjun. Nokkrir stuttir handleggir og fætur sýndu mikið þor en verða að bíða til næsta árs. Rétt fyrir sameiginlegan hádegisverð fór verðlaunaafhending „blómabarna“ fram, dómnefndin ákvað að veita þrenn verðlaun, ein fyrir skrýtnustu jurtina, stór kúalubbi varð fyrir valinu, stærsta jurtin var myndarleg hvönn og eyrarrósin fegursta blómið og var það vel við hæfi. Svo vel vildi til að verðlaunin skiptust á milli liðanna þriggja svo að allir krakkar fengu verðlaun. Brottför var kl 14.00, fyrst var haldið með rútunni að Gígjökli, sem gengur úr Eyjafjallajökli. Skriðjökullinn var öskugrár og Jökulsáin og lónið aðeins leiraurar sem minnti okkur enn og aftur á hinar miklu náttúruhamfarir frá því í vor. Í rútunni voru með okkur öldruð hjón úr Hveragerði, maðurinn, gamall fjallamaður, iðaði allur þegar hann heyrði að næsti áfangi okkar væri Merkurgilið. Það hafði hann gengið fyrir 30 árum, vaðið straumharða ána uppfyrir brjóst í koldimmu gilinu svo að hann sá ekki handar sinna skil, gamli útivistarmaðurinn fékk glampa í augun þegar hann rifjaði upp þessa svaðilför. Hvað er eiginlega að honum Þórði að velja þessa giljagöngu hugsuðum við. En þegar í gljúfrið kom kannaði Þórður allar aðstæður vel og vandlega áður en hann gaf grænt ljós. Einn fullorðinn og eitt barn skyldu fara þétt saman, hönd í hönd. Magnús afi leiddi samt Magnús og Margréti á sitt hvora hlið því að amma valdi að sitja hjá og taka myndir . Hróp, köll, æsingur og eftirvænting þessarar 100-150 m gljúfurferðar endurspegluðu þor, spenning og gleði yfir frábærri manndómsþraut og stórkostlegri upplifun, jafnt hinna eldri sem yngri. Þegar við vorum komin í gegn um gilið og amma tók á móti okkur sagði Magnús yngsti, stoltur í bragði „amma, það var rétt ákvörðun hjá þér að fara ekki“. Á Hvolsvelli kom Margrét yngri símanum til skila og fékk fundarlaun fyrir skilvísina. Við komum svo heim Reykjavíkur kl 18.30 EftirmáliÞessi ferð Ferðafélags Íslands og Ferðafélags barnanna tókst afburða vel, fararstjórarnir Fríða og Þórður og Halldór trússari sinntu sínu með einstakri natni og umhyggju, svo vart er hægt að hugsa sér að betur hefði mátt gera. Nú bíða krakkar, pabbar, mömmur, afar og ömmur spennt eftir næstu ferð að ári. Takk fyrir frábæra ferð.