Fjölskylduferð í Þórsmörk um næstu helgi

Suðurland - María María - Fjölskylduferð í Þórsmörk (e) - Ferðir FÍ
Ferðir - RSS
Númer:

H-3e
Dagsetning: 8.8.2009
Brottfararstaður: Mörkin 6, kl 8
Viðburður: Suðurland - María María - Fjölskylduferð í Þórsmörk (e)
Lýsing:

SUÐURLAND
María María – fjölskylduferðir í Þórmörk NÝTT

13. – 14. júní   27. júní -28. júní , 11. – 12. júlí,  25. – 26. júlí,  8.-9. ágúst

Ekið að morgni laugardags kl 8 frá Mörkinni 6, haldið að Skógum með göngufólk á leið yfir Fimmvörðuháls áður en ekið er í Þórsmörk. Gönguferðir, ratleikur, grillveisla og kvöldvaka við varðeld.  Tilvalin ferð fyrir alla fjölskylduna.  

Verð:  22.000 / 24.000.   Ókeypis fyrir 16 ára og yngri innan fjölskyldu. 

Fjölskyldugjald kr. 36.000 / 41.000. ( miðast við lögheimili)                              
Innifalið: Gisting, rúta, fararstjórn og grillveisla.

 

María, María í Þórsmörk

Í kjölfar þess að íslenskt fjármálakerfi hrundi til grunna hafa margir Íslendingar endurmetið viðhorf sitt til þess hver eru þau raunveruleg verðmæti sem lífið býður upp á.

Að vonum líta margir til fortíðar með eftirsjá þegar lífið var einfaldara, fábrotnara og einhvern veginn skemmtilegra.

Ferðafélag Íslands hefur ákveðið að endurvekja fjölskyldustemningu fyrri tíma og bjóða upp á rútuferðir inn í Þórsmörk þar sem öll fjölskyldan getur sameinast í gönguferðum, gleði, grillveislum og fjöldasöng. Kannski verða ekki allir í útprjónuðum peysum og uppháum sokkum og við lofum ekki harmonikuleik og dansi á kvöldvökunni en samt getur allt gerst þegar gleðin er við völd.

Þarna gefst samheldnum fjölskyldum einstakt tækifæri til þess að endurlifa og endurvekja útilegustemninguna sem tíðkaðist á Íslandi áður en allir eignuðust jeppa og fellihýsi á erlendum lánum heldur létu sér nægja smurt brauð í nesti og gamla Tjaldborgartjaldið.

Tilhögun ferðanna er með þeim hætti að ekið er frá húsakynnum Ferðafélags Íslands í Mörkinni snemma á laugardagsmorgni og haldið í austurátt. Fyrst er ekið austur að Skógum og þar stíga af rútunni þeir sem vilja fara gangandi yfir Fimmvörðuháls yfir í Þórsmörk en rútan heldur svo áfram áleiðis inn í Þórsmörk með aðra farþega. Í Langadal er einn af stærstu skálum Ferðafélagsins, Skagfjörðsskáli og þar una menn við gönguferðir, ratleiki, grillveislur og kvöldvöku langt fram á ljósa sumarnótt. Þá má kannski heyra einhvern raula: troddu þér svo inn í tjaldið hjá mér María, María…

Í nágrenni Langadals er óviðjafnanleg náttúrufegurð. Steinsnar er upp á Valahnúk sem veitir frábært útsýni yfir alla Þórsmörk og Goðaland en þaðan er hægt að fara yfir Í Húsadal og rannsaka Sönghelli, Sóttarhelli, klifra upp í Snorraríki og ef til vill halda í rannsóknarleiðangur inn að Stóraenda og sjá einn stærsta steinboga á Íslandi. Þaulkunnugir fararstjórar Ferðafélagsins kunna skil á hverjum steini og hverjum tind og rekja fornar sögur og ævintýri með ferðamönnum.

Giljum skorið landslagið í Þórsmörk hefur alltaf heillað ferðamenn með angandi kjarri, beljandi jökulfljótum og hátt yfir glampar á drifhvíta jökulskalla Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Hér tengjast börn og fullorðnir náttúrunni þeim böndum sem aldrei rofna og sameiginleg upplifun fjölskyldunni verður að perlum sjóði minninganna.

Daginn eftir taka menn svo saman föggur sínar og halda til Reykjavíkur á ný.

Á dagskrá félagsins í sumar er gert ráð fyrir allnokkrum ferðum af þessu tagi og eru þær fyrstu dagsettar um miðjan júní þegar laufskrúðið í Þórsmörk er að fullu vaknað af vetrardvala og stendur í hvað mestum blóma.

Um þessar mundir verður mönnum tíðrætt um að nauðsynlegt sé að uppgötva á ný forn og góð gildi og öðlast nýtt verðmætamat. Þátttaka í svona ferð er eitt af tækifærunum til þess.

Nánari upplýsingar fást á vefsíðu Ferðafélagsins www. fi.is eða á skrifstofu félagsins í síma 568-2533