„Það er mjög gaman að þessu,“ segir Jóhann Kári Ívarsson. Hann er umsjónarmaður Ferðafélags unga fólksins ásamt Anders Rafni Sigþórssyni. Annan hvern sunnudag í vetur hefur FÍ Ung efnt til stuttra viðburða, yfirleitt fjallagangna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Nú er stuttu viðburðunum að ljúka og framundan eru þrír stærri viðburðir á dagskránni, nokkra daga göngur.
Ferðafélag unga fólksins er ætlað fyrir fólk á aldrinum 18-25 ára. Vetrarviðburðirnir á sunnudögum eru ókeypis. Allir geta mætt. Og það hefur verið fín mæting, segir Jóhann. Allt upp undir 25 manns í sumar göngurnar. Alls konar fólk mætir, bæði framhaldsskólanemar og háskólanemar. Fólk kemur saman í vinahóp eða eitt síns liðs. Það er allur gangur á því.
„Við auglýsum þetta á Facebook og síðan spyrst þetta líka út. Við reynum að fá til okkar ungt fólk sem hefur áhuga og vill byrja að labba. Margir eru að stíga sín fyrstu skref í göngum og margir koma aftur og aftur.“
Þetta verkefni hófst fyrir tveimur árum. Jóhann Kári og Anders tóku við umsjóninni í fyrra, af Vilborgu Örnu og fleirum. Fjallagarpurinn John Snorri hefur síðan komið inn í þetta líka og verið með hópnum töluvert og miðlað af yfirgripsmikilli reynslu sinni.
Jóhann og Anders vinna sem skálaverðir hjá FÍ á sumrin. Jóhann er einmitt búinn að vera í Þórsmörk í vikunni að gera allt klárt. Kominn er skálavörður í Langadal og umferðin að fara í gang. Á veturna stunda Jóhann og Anders svo háskólanám, í HR og HÍ, ásamt því að stjórna FÍ Ung.
Ferðirnar þrjár í sumar eru þessar: Genginn verður Fimmvörðuháls í byrjun júlí. Svo verður Laugavegurinn farinn yfir verslunarmannahelgina og ferð í Landmannalaugar er á dagskránni seinni partinn í ágúst.
Á laugardaginn er sem sagt síðasti planaði stutti viðburðurinn á vegum FÍ Ung, áður en sumarið skellur á. Þá verður farið í sjósund í Nauthólsvíkinni. Hist kl. 11. Framhaldsskólanemar og háskólanemar eru almennt í prófum um þessar mundir.
Þá er sjósund málið.