Fjórar nýjar ferðabækur

Ferðafélag Íslands gaf í sumarbyrjun út fjórar brakandi nýjar og spennandi ferðabækur: Árbók um Vestur-Húnavatnssýslu, gönguleiðarit bæði um Hellismannaleið á Landmannaafrétti og Almannaveg yfir Ódáðahraun og svo ljósmyndabók um Laugaveginn.

Bækurnar fást allar á skrifstofu FÍ í Mörkinni 6 en einnig er hægt að hringja á skrifstofuna í síma 568 2533 og fá bækurnar sendar í póstkröfu.

Árbók 2015

Árbók Ferðafélags Íslands 2015 fjallar um Vestur-Húnavatnssýslu - frá Hrútafjarðará að Gljúfurá. Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður skrifar um Vestur-Húnavatnssýslu en liðin eru nær 60 ár frá því að síðast var fjallað um sýsluna í árbók Ferðafélagsins. Allir félagar í FÍ fá árbókina senda heim, sér að kostnaðarlausu, um leið og þeir eru búnir að greiða félagsgjöldin en aðrir geta keypt bókina á skrifstofu FÍ.





Hellismannaleið

Hellismannaleið er merkt 3-4 daga leið frá Leirubakka og alla leið í Landmannalaugar. Í þessu fræðsluriti er fjallað um þessa gönguleið en að auki eru þar lýsingar á fjölmörgum skemmtilegum gönguleiðum út frá helstu áningarstöðum á leiðinni á Landmannaafrétti og í Friðlandi að Fjallabaki. GPS punktar og góð kort fylgja hverri leið. Þetta rit er ómissandi í bakpokann.




Almannavegur yfir Ódáðahraun

Þetta fræðslurit lýsir varðaðri leið yfir norðurhluta Ódáðahrauns, svonefndum Almannavegi. Líklegt er talið að þessi leið hafi verið notuð fyrr á öldum þegar fara þurfti milli Norður-Múlasýslu og Mývatns en fylgja má vörðum meginhluta leiðarinnar. Í ritinu er saga leiðarinnar rakin og leiðinni sem liggur um fallegt og fjölbreytt öræfasvæði lýst. Fjöldamargar ljósmyndir eru í bókinni, sem og góð kort sem sýna leiðina og staðsetningu varðanna.


Ljósmyndabók um Laugaveginn

Þessi veglega ljósmyndabók um Laugaveginn er samsafn landslagsljósmynda Bjarkar Guðbrandsdóttur um gönguleiðina frá Landmannalaugum í Þórsmörk. National Geographic útnefndi Laugaveginn sem eina af 20 bestu gönguleiðum í heimi og ljósmyndirnar í þessari bók sýna að leiðin á svo sannarlega skilið þann heiður. Ljósmyndarinn, Björk, hefur stundað útivist og hálendisgöngur í mörg ár og meðal annars gengið Laugaveginn 12 sinnum.