Fleiri ögrandi hátindaferðir

Ferðaúrval Ferðafélags Íslands er í stöðugri þróun og helst í hendur við breytingar á áhugasviði landans og eftirspurn félagsmanna.

Enginn þekkir þessar sveiflur betur en Sigrún Valbergsdóttir sem hefur stýrt starfi ferðanefndar FÍ í tólf ár. Hún nefnir til dæmis aðrútuferðum, sem áður voru vinsælasti fararmátinn, hafi fækkað mikið í samræmi við aukna bílaeign. Fjarlægðirnar hafi skroppið saman og fólk víli ekki fyrir sér að aka langa leið að upphafsstað einhverjar ferðar.

,,Svo hefur orðið sú þróun að boðið er upp á fleiri ögrandi hátindaferðir. Háu tindarnir utan í Vatnajökli njóta til dæmis vaxandi vinsælda. Fólk vill klifra með ísaxir og brodda," segir Sigrún og nefnir líka fjallaskíðaferðir sem eru nýjar af nálinni hjá FÍ og njóta gríðarlegra vinsælda.

,,Aðalbyltingin sem hefur orðið felst samt sem áður í stofnun Ferðafélags barnanna og Ferðafélags unga fólksins," segir Sigrún. ,,Það starf skapar samfellu og sýnir að það er hægt að stunda útivist á öllum aldurskeiðum og óþarfi að bíða þangað til börnin eru orðin fullstálpuð, eins og margir gerðu gjarnan hér áður fyrr.

150 ferðir í boði

Þessar breytingar endurspeglast árlega í Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands sem kemur út í janúarbyrjun. Alls eru hátt í 150 ferðir á dagskrá FÍ á hverju ári svo Sigrún hefur að mörgu að hyggja sem formaður ferðanefndarinnar.

Fljotsdrog_og_Eiriksjokull.jpg

Sigrún leiðir hóp um Arnarvatnsheiði í ferð sem hún hefur gengið
alls 22 sinnum án þess nokkurn tímann að mæta manneskju!


Sex manns sitja ásamt Sigrúnu í ferðanefndinni, allt reynslumiklir fararstjórar með sérþekkingu á mismunandi svæðum. ,,FÍ er svo ríkt af þessari mikilvægu sérþekkingu," segir Sigrún sem bendir líka á alla þekkinguna og það öfluga og góða starf sem fram fer í 15 deildum Ferðafélagsins sem starfa út um allt land og skipuleggja ferðir hver á sínu svæði. Allar deildaferðirnar, yfir 200 talsins, er líka að finna í Ferðaáætlun FÍ.

Með blæðandi hælsæri á báðum

Það sem smitaði Sigrúnu sjálfa af fjallgöngubakteríunni var þegar hún, ásamt eiginmanni sínum, Gísla Má Gíslasyni, fór í sína fyrstu Hornstrandaferð með Guðmundi Hallvarðssyni fyrir rúmum 20 árum.

,,Þetta var dásamleg ferð þrátt fyrir að við hjónin værum með blæðandi hælsæri á báðum eftir fyrsta daginn. Við komumst þó upp á Kálfatinda og þá uppgötvaði ég að Hornvík var fegursti staður á Íslandi og skildi ekkert í því af hverju mér hafði aldrei verið sagt frá þessu!," segir Sigrún.

,,Guðmundur var algjör galdramaður og óhemjulega skemmtilegur fararstjóri og svo æxlaðist að hælsærin voru hvergi nærri gróin þegar við vorum búin að bóka okkur í ennþá erfiðari ferð sumarið eftir," segir Sigrún sem sjálf hefur nú starfað við fararstjórn í fjölda ára.