"Fólkið vildi ekkert við okkur tala"

Runninn er upp tími gönguferða á vegum Ferðafélagsins um friðlandið á Hornströndum og er fyrsta ferðin raunar þegar hafin, undir stjórn Jónínu Pálsdóttur fararstjóra. Búast má við að margir fleiri Hornstrandafarar séu að undirbúa sig í þessum skrifuðu orðum en á sumri hverju skipta farþegar FÍ á þessu rómaða svæði hundruðum. Vart þarf að fara mörgum orðum um fegurð og mikilfengleik Hornstranda auk þess sem saga liðinna alda er við hvert fótmál. 

Hornstrandaferðir FÍ í sumar eru jafn ólíkar og þær eru margar og hefur í áranna rás safnast upp mikil þekking á svæðinu meðal fararstjóra félagsins. Sigríður Lóa Jónsdóttir sálfræðingur og fararstjóri hjá FÍ, betur þekkt sem Sigga Lóa, er ein þeirra sem annast hefur leiðsögn á Hornströndum mörg undanfarin ár og er ekki í neinum vafa með það í hverju aðdráttarafl Hornstranda felst. "Í fyrstu ferðinni minni, fyrir tæplega 15 árum síðan, tengdist ég svæðinu raunar ekki sterkum böndum að öðru leyti en því að áhugi minn á sögu Hornstranda efldist að miklum mun," segir hún. "Fram að fyrstu Hornstrandaferðinni minni hafði ég tekið þátt í gönguferðum vítt og breitt um landið en hugmyndir mínar um Hornstrandaferðir voru þær að þessar ferðir hlytu að vera erfiðari en það sem ég hafði fengist við. Þegar á hólminn var komið uppgötvaði ég að það gætti þó ekki nema stigsmunar," segir hún. 

"Þegar ég fór að kynnast Hornströndunum betur, þá opnaðist fyrir mér alveg nýr heimur og sérstaklega fannst mér áhugavert að reyna að setja mig inn í aðstæður fólksins sem bjó þarna og hvernig það háði lífsbaráttu sína með sjósókn og eggjatöku. Jarðir eru víðast litlar, en á móti kemur að hlunnindi af rekavið og bjargfugli voru umtalsverð. Merking orðtaksins að draga björg í bú, verður augljós við heimsóknir á þessi svæði. En það gefur augaleið að veturnir hafa verið feiknalega harðir. Í hugum nútímafólks sem setur sig inn í þessar aðstæður og nýtur um leið fallegrar náttúru, hljóta Hornstrandir að skipa veglegan sess." 

Líða fer að Hornstrandaferð Siggu Lóu með hóp á vegum FÍ dagana 1.- 8. júlí, á nokkuð óhefðbundnar slóðir og er yfirskrift ferðarinnar "Þar sem jökulinn ber við loft.." Ferðast er um Jökulfirði og Austurstrandir og gist í tjöldum og húsum. 

"Skipulagðar ferðir á vegum ferðafélaganna á þessar slóðir, Lónafjörð og nágrenni eru sjaldgæfar og ég veit ekki til þess að FÍ hafi haft þær á dagskránni undanfarin 2 ár eða svo. Þetta á e.t.v. sínar skýringar, í Lónafirði er ekki skálagisting,fólk verður að bera sitt hafurtask á bakinu og vaða sjávarlón daglangt, þveröfugt við það sem gengur og gerist í þeim gönguleiðum sem hafa notið vaxandi vinsælda á Hornströndunum. Hluti af norðanverðum Jökulfjörðum hefur því orðið svolítið útundan og nú er tímabært að sinna þeim og koma þeim inn á áætlun," segir hún.

"Jökulfirðirnir búa yfir margvíslegum leyndardómum. Það mætti nefna greinileg för eftir trjáboli í Veiðileysufirði og í Lónafirði svo dæmi sé tekið en talið er að fyrir 14 milljónum ára hafi landið verið verið skógi vaxið og gróðurfar í líkingu við það sem gerist í suðlægari löndum. Í Lónafirði má einnig sjá heitavatnsuppsprettu við klappir í sjávarmálinu og þar er mjög gróskumikið svæði með víðitegundum og birkikjarri."

Eitt af markmiðum Siggu Lóu er að bæta við nýjum leiðum í hverri Hornstrandaferð og koma þeim inn í skipulagðar ferðir sínar með hópa. "Já, mér finnst bæði skemmtilegt og spennandi að finna eitthvað sem ég á sjálf eftir að fara á Hornströndum og flétta nýjar leiðir inn í göngudaskrána, segir hún"  

Segja má að bæði náttúra og mannvistarleifar á Hornströndum láti engan ósnortinn sem heimsækjir svæðið. Úr fórum Siggu Lóu kemur ein saga af ferð þar sem meðal þátttakenda var ung listakona. Lá leið hópsins upp á Straumnesfjall, þar sem gamla radarstöð Varnarliðsins beið þeirra. "Þessi kona hafði m.a. fengist við veggskreytingar og er við komum upp á Straumnesfjall, fylltist hún miklum eldmóð og fékk þvílíkar hugmyndir. Hún vildi flytja uppeftir og safna saman fólki sem hefði áhuga á að iðka listir sínar saman. Því miður varð ekkert af þessu, en engu að síður er er þetta skýrt dæmi um hversu mannvistarleifar, rétt eins og náttúran, geta haft mikil áhrif á fólk," segir Sigga Lóa. 

Og náttúran getur verið gráglettin á Hornströndum og sett strik í reikninginn hjá göngufólki. Ein saga segir af því þegar Sigga Lóa varð innlyksa með 20 manna hóp í Bolungarvík  á Ströndum. "Þetta var í kjölfar mikilla rigninga og vatnavaxta og við komumst hvorki norður né suður. Bátar komust heldur ekki til okkar og því varð töfin á þriðja sólarhring. Fólki fannst þetta samt mjög spennandi. Við drifum okkur út í gönguferðir einu sinni á dag í rigningunni og skipulögðum sérstakar sögu- og hvíldarstundir í skálanum og fleira þeim dúr svo útkoman varð mjög eftirminnileg ferð," segir hún. 

Að lokum er það sagan af því þegar Sigga Lóa var aftur á ferð með hóp í Bolungarvík sumarið 2007 og lenti í sérkennilegri reynslu. "Við vorum beðin um fara til aðstoðar við annan hóp sem kom norðan frá Hornvík og virtist eiga í vandræðum með að komast yfir Bolungarvíkurósinn. Þegar ég kom að ósnum með sterka menn úr mínum hópi, var okkur hinsvegar mætt með undarlegu fálæti og fólkið vildi ekkert við okkur tala. Þau gerðu sig skiljanleg með það að þau vildu að við hreinlega snautuðum í burtu! Og við það sat. Við fylgdumst með þeim komast yfir ósinn við illan leik og enn voru þau mjög fáskiptin. Síðar gaf einn sig á tal við okkur og útskýrði fyrir okkur að þetta væri hópur á leið frá Hornvík í Reykjarfjörð með það að markmiði að tala ekkert í ferðinni. Þetta var þá liður í þjálfun þeirra í vinnu með unglinga. Við hittum síðan þennan sama hóp í Reykjarfirði að lokinni ferð þeirra og þá höfðu þau aflétt þagnarbindindinu og fór að sjálfsögðu vel á með okkur," segir hún. "Ef út í það er farið, þá er þögnin gulls ígildi á gönguferðum og þetta sýnir manni að sífelldar samræður og mas þurfa ekki að vera efst á baugi þegar náttúruupplifun er annarsvegar“, segir Sigga Lóa að endingu.