Fótspor FÍ á fjöllum

Unnið er að því að setja upp skilti við skála og brýr á hálendinu þar sem greint er frá uppbyggingarstarfi FÍ.

Þegar er búið að setja niður slík upplýsingaskilti á tveimur stöðum, við göngubrúna yfir Kaldaklofskvísl á Fjallabaki (sjá mynd hér til vinstri) og við Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi.

Ferðafélag Íslands verður 90 ára á næsta ári og á þessum árum sem liðin eru frá stofnun félagsins hefur það víða látið til sín taka í uppbyggingu í óbyggðum Íslands. Í tilefni af afmælisári félagsins hefur verið lögð vinna í að sækja, varðveita og skrá niður upplýsingar um þessar framkvæmdir.

Nú er svo komið að til er mikið safn af fróðleik og skemmtilegum upplýsingum og verið er að setja þetta niður á skilti. Stefnt er að því að á endanum verði slíkum upplýsingaskiltum komið fyrir á 15-20 stöðum víðs vegar um hálendið til að fólk geti glöggvað sig á sögunni.

Skiltið við Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi Fimmvorduskilti-opt.jpg
Nýja skiltið við Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi

Til að mynda hefur gengið á ýmsu við brúarsmíði við vinsælar gönguleiðir, svo sem á Kili og á Laugaveginum. Á sumum stöðum hafa til dæmis verið settar niður allt upp í fimm göngubrýr yfir einu og sömu ána.

Annars staðar svo sem víða á Fjallabaki, Kjalvegi, Hornströndum, við Hlöðuvelli og Nýjadal hafa gönguleiðir verið stikaðar og merktar, skálar reistir og komið upp salernisaðstöðu svo dæmi sé tekið. Alls eru skálar FÍ og deilda félagsins um 40 talsins, vítt og breitt um óbyggðir landsins.

Ljosa_1981-opt.jpg Ljosa_1984-opt.jpg
Fyrstu brýrnar yfir Ljósá undir Kápu á síðasta kafla Laugavegarins. Þarna er nú gríðarhátt birki.