Frábærlega vel heppnuð FÍ ferð á Hvannadalshnúk

Seinni ferð FÍ á Hvannadalshnúk um nýliðna helgi var frábærlega vel heppnuð og komust allir á tindinn, 66 manns að meðtöldum fararstjórum, og fengu feiknagott útsýni á tindinum. Gangan tók rúmlega 13 tíma og að vanda biðu grillréttir og FÍ húfur Hnúksfaranna í Sandfelli.

Haraldur Örn Ólafsson fararstjóri tók ákvörðun um að leggja á fjallið strax á miðnætti, aðfaranótt laugardags, og reyndist sú ákvörðun heilladrjúg því skömmu eftir að hóparnir höfðu yfirgefið tindinn og notið stórkostlegs útsýnis í hæglætisveðri, lagðist þétt þoka yfir öskju Öræfajökuls. Er því ljóst að lítið sem ekkert útsýni hefði fengist ef lagt hefði verið seinna af stað frá Sandfelli. Hópurinn var fjölbreyttur og samanstóð af konum og körlum á öllum aldri, allt frá 15 ára til sjötugs. Mjög mannmargt var á fjallinu þennan dag, 6. júní, en FÍ hópurinn var fyrstur á ferðinni og mætti fjölmörgum hópum á niðurleiðinni. Ágætt færi var á jökli og nokkur snjófylla í sprungum. 

FÍ ferðir á Hvannadalshnúk verða ekki fleiri á þessu vori og  hafa alls 144 þátttakendur að fararstjórum meðtölum farið á tindinn. Er það mat þeirra sem staðið hafa að Hnúksferðum FÍ að báðar ferðir hafi verið sérlega vel heppnaðar, þrátt fyrir að í þeirri fyrri hafi ekki verið jafngott útsýni.

Sama dag og Hnúksfararnir sigruðust á hæsta tindi landsins, var annar leiðangur FÍ á Hrútsfjallstindum undir stjórn Guðmundar Freys Jónssonar. Þátttakendur voru 21 og var ferðin einstaklega vel heppnuð. Skemmst er frá að segja að allir í hópnum náðu settu marki og komust á Vesturtind og Hátind við bestu aðstæður og fengu óviðjafnanlegt útsýni. Lagt var af stað í gönguna frá Illuklettum við Svínafellsjökul kl. 23 á föstudagskvöld og voru því Hnúksfarar og Hrútsfjallstindafarar FÍ nokkuð samstíga á leið sinni upp á við. Þess má geta að fyrsta ferð félagsins á Hrútsfjallstinda var farin  árið 1987 og tókst mjög vel.

Óhætt er að segja í heild að nýliðin helgi hafi verið einkar gjöful fyrir FÍ á hæstu tindum landsins í Öræfajökli.