Rúmlega 30 manns tóku þátt í ferð Ferðafélags Íslands á Þverártindsegg þann 16 maí. Þetta tignarlega fjall sem er rúmir 1550 metrar á hæð nýtur vaxandi vinsælda meðal sístækkandi hóps fjallafara. Farin var stutt og brött leið upp úr Eggjardal sem gengur inn úr Kálfafellsdal og þvert yfir skriðjökulinn Skrekk og um bratta hryggi og fannir á toppinn.
Veður var með eindæmum gott, sól og heiðríkja og þátttakendur réðu sér vart fyrir kæti og þakklæti til máttarvaldanna enda útsýnið af fjallinu óviðjafnanlegt og hrikalegt landslagið þar efra gerir hvern mann orðlausan.
Fararstjórar í ferðinni voru Þórhallur Ólafsson, ásamt Guðmundi Jónssyni og Örlygi Sigurjónssyni.
Hópurinn gekk upp í fjórum línum undir stjórn Guðmundar Jónssonar, Jóns Sigurðssonar, Örlygs Sigurjónssonar og Einars Þórhallssonar og tók ferðin upp og niður tæplega 10 tíma.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ferðafélag Íslands býður upp á ferð á þetta tígullega fjall og um leið stærsti hópur sem hefur gengið á fjallið í einu lagi til þessa.