Fræðsluferðir FÍ og HÍ - hjólaferð um miðborgina 5. maí

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

 
Markmiðið með samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskólans og Ferðafélagsins.

 
------------------------------------------

Næstu ferðir:

5. maí kl. 11 - Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, leiðir hjólaferð um miðborgina og nágrenni. Staldrað verður við á nokkrum stöðum og fjallað um ýmis atriði borgarumhverfisins með augum landfræðinga. 

27. maí kl. 14 - Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands, og Sigurður Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, leiða gönguferð við Vífilsstaðavatn. Ferðin er sérstaklega sniðin að börnum, ungmennum og fjölskyldum þar sem skoðaður verður gróður, lífríki vatnsins og fuglar sem verða á vegi okkar. 

8. september kl. 11 - Kristín Einarsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild, leiðir hjólaferð, með aðstoð Þjóðbrókar, félags þjóðfræðinema, þar sem þjóðsögur, draugasögur, hjátrú sjómanna, vikivaki og óvæntar uppákomur verða á vegi okkar. 

6. október kl. 11 - Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, leiðir gönguferð um slóðir 250 ára sögu ljósmæðra. Gengið verður frá Skólavörðustíg 11 og komið við á þremur til fjórum áfangastöðum í miðbæ Reykjavíkur sem tengjast sögu ljósmæðra. 


Merkið ferðirnar endilega inn í dagbækurnar!