Framkvæmdir í Norðurfirði

 

Áslaug Halla Guðmundsdóttir, skálavörður í Norðurfirði

Viskubrunnur á Valgeirsstöðum

Ferðamenn í Norðurfirði á Ströndum koma ekki að tómum kofanum á Valgeirsstöðum, sæluhúsi Ferðafélagsins sem stendur við fallega sandfjöru við botn fjarðarins. Þar ræður Áslaug Halla Guðmundsdóttir ríkjum en hún hefur séð um skálavörslu á Valgeirsstöðum frá því félagið keypti húsið fyrir ellefu árum. Áslaug Halla gjörþekkir aðstæður, enda bjó hún á Norðurfirði I, næsta bæ við, í 46 ár.

„Kannski er húsið helst til of lítið því ég hef þurft að vísa 30 frá,“ segir Áslaug sem verður vör við vaxandi straum ferðamanna sem fer norður á Strandir, í Reykjafjörð, Bolungarvík og vestur fyrir í Hornvík og alla leið í Suðurvík. Margir kjósa að ganga á þessa staði en láta bát ferma mat og tjöld. Reimar Vilmundarson býður upp á bátsferðir og tekur á milli 20 og 30 manns í ferð.”

Áslaug hefur yndi af starfinu. „Það er voða gaman að vera alltaf með fólki í fríi sem er kátt og hresst. Þá yngist maður upp á hverjum degi. Þetta er líka svo gefandi þar sem ég þekki staðinn og sveitina vel og segi ferðamönnum í skálanum og á tjaldstæðinu frá flestu því sem ég þekki og veit til ef ég finn fyrir áhuga þeirra. Menn kunna virkilega vel að meta það.“

Flýtir sér ekki suður

Skálavarsla verður á Valgeirsstöðum fram í miðjan september. „En ég er ekkert að flýta mér suður ef veðrið er gott. Ég verð þá bara hérna í rólegheitunum og kíki kannski á ber.“

Flestir gestir í skálanum í Norðurfirði eru Íslendingar en þegar blaðamaður spjallaði við Áslaugu voru staddir hjá henni níu bandarískir jarfræðingar sem dvelja um hríð og stunda m.a. rannsóknir á svæðinu, aðallega á grjóti. Samtals tekur húsið 20 manns í kojum, en getur hýst 24 með dýnum. Þar er einnig borðstofa og velbúið eldhús. Í eldhúsinu er heitt og kalt vatn, rafmagnseldavél með ofni, örbylgjuofn og allur borðbúnaður. Í húsinu er sturta og tvö salerni. Í 10 mínútna göngufæri frá húsinu er verslun og sundlaug er á Krossnesi, ekki ýkja langt í burtu.

Fjölmargar spennandi gönguleiðir um stórbrotið land eru í nágrenninu. Margir labba Geitahlíð og Ingólfsfjörð og yfir Brekku og tjalda í Ófeigsfirði, en þar er gott tjaldsstæði, og halda síðan áfram norður og taka jafnvel bát til baka.