Framtíðarskipulag Þingvalla

Nú er lokið hugmyndaleitinni sem efnt var til í sumar. Alls bárust 102 tillögur frá 88 höfundum og verða þær allar til sýnis í Tjarnarsal (kjallara) Ráðhússins í Reykjavík og verður sýningin opnuð kl. 16 þriðjudaginn 18. október.

Hún verður opin almenningi til sunnudagsins 23. október.

Dómnefndin hefur lokið störfum og greinir frá niðurstöðum sínum og hvaða fimm tilögur hljóta viðurkenningu föstudaginn 21. október kl. 15:00 í Tjarnarsalnum og eru allir velkomnir á þann fund.

Laugardaginn 22. október kl. 13.30 verður síðan á sama stað haldið málþing - svokölluð Hugmyndasmiðja sem er öllum opin. Þar verða tillögur hugmyndaleitarinnar ræddar enn frekar en auk formanns dómnefndar, Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, munu þau Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur, Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis og Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður, flytja stutt erindi um sögu og menningu á Þingvöllum, tengsl Alþingis og Þingvalla og náttúru Þingvalla og upplifun gesta.

Að loknum erindunum skipa fundarmenn sér í hópa og ræða viðfangsefnin nánar og stýrir Árni Geirsson hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta umræðum. Málþingið stendur í 2-3 klukkutíma.

Vertu velkominn í Tjarnarsalinn til þessara viðburða.


Ólafur Örn Haraldsson
Þjóðgarðsvörður Þingvöllum