Ferðafélag barnanna og FÍ bjóða til leiksýningar
Ferðafélag barnanna og FÍ bjóða til leiksýningar á leikritið Ævintýrið um augastein sunnudaginn 13. desember kl. 12.00. Leikritið er eftir Felix Bergsson leikara og fararstjóra hjá Ferðafélaginu en hann leikur einleik í þessari fallegu sýningu. Þess má geta að barnabókin Ævintýrið um Augstein fékk glimrandi viðtökur fyrir jólin 2003 og seldist í þúsundum eintaka.
Ævintýrið um Augastein var frumsýnt í London árið 2002 og á Íslandi árið 2003. Verkið byggir á hinni sígildu sögu um Grýlu og jólasveinana en ævintýrið er tekið lengra og sagan um litla drenginn, sem nefndur er Augasteinn, verður miðpunktur leikritsins. Augasteinn lendir fyrir tilviljun í höndum hinna hrekkjóttu jólasveina sem læra smám saman að elska litla drenginn og annast hann. Skyndilega kemst Grýla á snoðir um tilveru barnsins og við tekur æsispennandi flétta. Ná jólasveinarnir að bjarga Augasteini úr klóm Grýlu og Jólakattarins áður en jólin ganga í garð? Það er Felix Bergsson sem leikur öll hlutverkin í Ævintýrinu um Augastein.
Félagsmenn í FÍ og eða þeir sem hafa skráð sig í Ferðafélag barnanna geta hringt í skrifstofu FÍ, s. 568-2533 á milli 12 - 17 og pantað miða sem verða afhendir fyrir sýningu skv. nafnalista. Hægt er að taka alla fjölskylduna með.
FÍ – jákvæður jólapakkiFerðafélag Íslands hefur boðið fjölmörgum fyrirtækjum upp á jákvæðan jólapakka, þe að gefa starfsmönnum sínum aðild að Ferðafélagi Íslands og fá starfsmenn þá félagsskírteini, árbók og aðgang að öllu starfi félagsins og um leið ekki síst hvatningu til að hreyfa sig, fara út að ganga og halda til fjalla. Félagsmönnum FÍ er einnig bent á þennan möguleika að skemmtilegri jólagjöf en verðið er hið sama að árgjaldið eða kr. 5.400. Þá minnir skrifstofa einnig á fjölda rita, korta og bóka sem fást á skrifstofu félagsins og nú er hægt að kaupa árbókina 2009 á kr. 6.900 eða á kr. 5.400 með því að ganga í félagið. Hádegisgöngur halda áfram – ganga í dag þriðjudagHádegisgöngur Ferðafélags Íslands hófust í síðustu viku. Þeim verður fram haldið og er gengið kl. 12.00 á þriðjudögum frá Árbæjarlaug og Elliðaárdal og nágrenni og kl. 14.00 á fimmtudögum frá Nauthólsvík eftir ýmsum leiðum við sjóinn.
Ferðafélagið annast leiðsögn og fararstjórn en göngurnar eru sniðnar við allra hæfi og ætlað að hvetja fólk til holllrar og reglulegrar útiveru í félagsskap fólks með áþekk áhugamál. Öll ferðalög stór og smá hefjast á einu skrefi og kannski reynist þátttakan hádegisgöngum FÍ upphafið að stærri afrekum á sviði útivistar og gönguferða.
Hádegisgöngur Ferðafélagsins hófust 1. des
Þann 1. desember sl. hófust hádegisgöngur á vegum Ferðafélags Íslands. Þetta er nýr liður í starfsemi félagsins og ætlað að bjóða upp á hressandi útivist í skemmtilegum félagsskap með reglubundnum hætti.
Göngurnar eru ókeypis og öllum opnar og við allra hæfi. Ferðafélagið leggur til fararstjóra í hvert sinn sem stýrir gönguferðinni, verður með fróðleik og gamanmál á hraðbergi og stjórnar upphitun og teygjuæfingum.
Hádegisgöngurnar verða farnar á þriðjudögum og fimmtudögum. Á þriðjudögum hittast þátttakendur við Árbæjarlaug kl. 12.00 og þá liggur leiðin um Elliðaárdal og þær fjölbreyttu leiðir sem þar eru í boði.
Á fimmtudögum hittast þátttakendur kl. 14.00 í Nauthólsvík fyrir ofan ylströndina. Þá daga liggur leiðin eftir stígakerfi borginnar meðfram sjónum eða um skógarstíga sem þræða má um Öskjuhlíð og nágrenni.
Fyrsta gangan var farin frá Árbæjarlaug 1. desember n.k. þegar Íslendingar fögnuðu 91 árs afmæli fullveldisins.
Göngugleði á sunnudögum - ferðasaga
Göngugleði FÍ er alla sunnudaga kl. 10.30. Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir. Gengið er í nágrenni Reykjavíkur, göngumenn halda saman í einkabílum að upphafsstað göngu. Takið með ykkur nesti og góðan búnað. Hér fylgir ferðasaga úr göngugleðinni 22. nóvember. Sunnudaginn 22. nóvember mættu nokkrir gangendur á vegginn (Mörkina 6). Eftir nokkrar umræður um ýmsar uppástungur og misheppnaðar tillögur varð að samkomulagi að aka upp að efnisnámum austan við Þormóðsdal, en þær eru sunnan undir Hulduhól (208 m). Ekki urðum við þó varir við huldukonu. Eftir stuttan hringakstur um námuna þar sem gefur að líta skemmtilegt stuðlaberg í námuveggjunum geislað í ýmsum útgáfum var bílnum lagt og gangan hafin inn Seljadal. Heiðskírt var og hiti nálægt frostmarki, freðin jörð, logn, en mistur í lofti benti til að ekki væri langt í strekkingsvind. Háspennulína liggur um dalinn og nutum við góðs af bílslóða er liggur meðfram henni. Nálægt dalbotni héldum við upp í Grímarsfell (eða Grímmannsfell) og þar sem Hornstrandaleiðtoginn var hvergi nálægur leyfðum við okkur að drekka í skjólgóðri laut á móti sólu, en er hér var komið var komin örlítil gola, dálítið nöpur. Eftir hvíld, næringu og spjall var haldið á Háahnúk, en þar er Grímarsfellið hæst (484 m) og notið útsýnis til Hátinds Esju, Móskarðahnúka og næstum hvítra Botnssúlna og Kálfstinda þar talsvert sunnar og lengra í burtu. En nú var moldarmistrið orðið svo mikið að ekki sást til Hengils, Vífilfells né Bláfjalla og mátti sjá á gervitunglamynd er sjónvarpsveðurfræðingurinn sýndi okkur um kvöldið að það átti upptök á svæðinu fyrir sunnan Langjökul, við Hagavatn og þar í kring og vorum við í ótrúlega miklu skjóli frá Esjunni því aðeins var gola þarna uppi.
Frá Háahól gengum við SSV yfir fellið og niður þar sem er merkt Nessel á korti, en ekki rákum við augun í nein merki um sel þar. Komum í bílinn eftir 3 klst. og 3 stundarfjórðunga og höfðum lagt að baki um 12 km.
Sérlegur myndasmiður mætti ekki að þessu sinni og því engar myndir teknar, því miður.
Kær kveðja,
Bragi Hannibalsson
Skyggnir. Ljósmyndasamkeppni Ferðafélags Íslands Fjölmargir tóku þátt í ljósmyndasamkeppni FÍ en frestur til skila inn myndum í keppnina rann út 1. Desember. Alls bárust um 100 myndir frá þátttakendum, myndir bæði úr ferðum félagsins og eins náttúrumyndir. Dómnefnd kemur saman 18. desember og verða úrslit kynnt í kjölfarið. Ferðaáætlun FÍ 2010Ferðaáætlun FÍ 2010Ferðaáætlun FÍ 2010 er nú í lokavinnslu. Ferðanefnd hefur skilað áætluninni frá sér til skrifstofu og er nú unnið að ýmsum frágangsatriðum en Ferðaáætlunin kemur út um miðjan janúar. Ferðaáætlun FÍ er prentuð og dreift í 70.000 eintökum og markar upphaf hvers ferðaárs hjá þúsundum Íslendinga. Í ritinu er að finna yfirlit yfir ferðir ársins og starfsemi Ferðafélagsins í máli og myndum.Hægt er að birta auglýsingar í Ferðaáætlun FÍ og þannig geta auglýsendur komið skilaboðum með beinum hætti til sífellt stækkandi markhóps er stundar útivist og ferðalög. Frekari upplýsingar veitir Bjarni Freyr í síma 866-4086 en einnig má senda tölvupóst á netfangið bjarni@fi.is. Með kveðju, Skrifstofa FÍ www.fi.is . s. 568-2533, fi@fi.is