Fréttapóstur FÍ 11. mars.

Fréttapóstur frá Ferðafélagi Íslands 11. mars

Ferðafélagið gefur út tímarit - leit að nafni

Ferðafélagið gefur út tímarit

Ferðafélag Íslands hefur ákveðið að hefja útgáfu tímarits sem dreift verður til allra félagsmanna þeim að kostnaðarlausu. Í tímaritinu sem ætlað er að komi út tvisvar sinnum á ári nánar tiltekið vor og haust verður fjallað um margvíslegt efni sem tengist Ferðafélagi Íslands, starfi þess og viðfangsefnum  sem og ýmsu öðru fróðlegu er tengist útiveru, fjallamennsku og ferðamennsku.

Í tímariti eins og þessu gefst félaginu færi á að miðla fróðleik og þekkingu til félagsmanna sinna með fjölbreyttari og nýstárlegri hætti en hægt með útgáfu árbókar og fræðslurita um afmörkuð svæði. Tímaritið mun segja frá nýjungum á sviði útivistar og ferðalaga, birta ævintýralegar ferðasögur, lýsa nýjum svæðum og gönguleiðum. Það mun og fjalla um starfsemi Ferðafélagsins bæði nýjungum í félagsstarfinu og nýjum ferðum og landvinningum í óbyggðum Íslands sem með réttu má segja að séu starfssvæði Ferðafélagsins.

Einnig gefst færi á í þessu tímariti að varðveita og fjalla um ýmsa atburði úr sögu félagsins sem ekki er vettvangur fyrir í annarri útgáfu. Þetta á við umfjallanir og frásagnir af markverðum atburðum og tímamótum í starfsemi félagsins, viðtölum við þrautreynda ferðamenn og greinar um þá þætti í félagsstarfinu sem almennt er lítið minnst á annars staðar.

Ritstjórn blaðsins hefur lagt línur að stefnu og markmiði blaðsins og gerðar hafa verið áætlanir um að fyrsta tölublað tímaritsins líti dagsins ljós á vordögum 2009. Páll Ásgeir Ásgeirsson  hefur verið ráðinn ritstjóri blaðins og hefur umsjón með efni  í samvinnu við ritstjórn og framkvæmdastjóra Ferðafélagsins. Í ristjórn sitja Ólafur Örn Haraldsson, Sigrún Valbergsdóttir og Páll Guðmundsson.

Enn hefur ekki verið ákveðið hvað tímaritið skuli heita og því leitum við til ykkar ágætu félagsmenn og hvetjum ykkur til þess að senda okkur tillögur að nafni á þessu nýja málgagni Ferðafélags Íslands. Sendið tillögur ykkar á fi@fi.is fyrir 1. apríl n.k. og leggið okkur þannig lið við að gera gott félag betra.

Ferðafélag á Árborgar

Til stendur að stofna á Selfossi Ferðafélag Árborgar, sem verður deild í Ferðafélagi Íslands. Ferðafélög eru sjálfstæðar deildir sem starfa eftir lögum og markmiðum FÍ.   Stofnfundur Ferðafélags Árborgar  verður haldinn fimmtudagskvöldið  12. mars n.k. í Karlakórsheimilinu að Eyravegi 67 á Selfossi, kl: 20:00.  Forseti FÍ og framkvæmdastjóri  mæta á fundinn og kynna starfsemi félagsins.   Allir velkomnir. Kaffiveitingar.

 

Ungmennastarf FÍ – allir út og Fjallaskóli FÍ

Skúli Björnsson hjá Sportís/Cintamani hefur verið ráðinn verkefnisstjóri hjá Ferðafélagi Íslands.  Skúli mun hafa umsjón með ungmennaverkefni FÍ sem fengið hefur vinnuheitið ,,allir út“.  Skúli mun þróa og móta ungmennastarfið ásamt verkefnisstjórn en undir  verkefnið fellur meðal annars  Fjallaskóli FÍ sem verður starfræktur í Þórsmörk,  útgáfa á handbók fyrir börn og foreldra um ferðir og samskipti við náttúruna,  ný heimasíða fyrir börn um ferðalög og útiveru, fjallaferðir í Esjuna fyrir leikskólabörn, sérstakar ferðir fyrir börn, unglinga og foreldra.  Þá mun Skúli leita samstarfsaðila að verkefninu og tryggja rekstrarlegar forsendur verkefnisins.  
Skúli hefur undanfarin ár byggt upp fyrirtækið Sportís / Cintamani og verið þar eigandi og framkvæmdastjóri en hefur nú tekið sér hvíld frá þeim störfum.
Ferðafélag Íslands býður Skúla velkominn til starfa.

Ferðafélag á Þórshöfn

Til stendur að stofna Ferðafélag á Þórshöfn í lok mars.  Þá eru einnig áform upp um að stofna Ferðafélag á Snæfellsnesi.  Ferðafélögin yrðu deildir Ferðafélagi Íslands og starfa samkvæmt lögum  og markmiðum FÍ.

 

 

 

Fullbókað á Hvannadalshnúk

Fullbókað er nú í hina sívinsælu ferð FÍ á Hvannadalshnúk um Hvítasunnuhelgina.  Haraldur Örn Ólafsson er fararstjóri í ferðinni ásamt vöskum hópi línustjóra, þe aðstoðarfararstjóra. Þegar eru um 100 manns skráðir í ferðina og fjöldi á biðlista. Ferðafélagið bendir á æfingaprógramm fyrir ferðina, vikulegar fjallgöngur,  Esjan alla daga bæði í mars og apríl, dagsferðir FÍ, fimm tinda með FÍ sem og morgungöngur FÍ sem undirbúning fyrir Hvannadalshnúk,  sem og aðra líkamsrækt 2 - 3svar í viku.

Árbók FÍ 2009 um Vestmannaeyjar

Árbók FÍ 2009 um Vestmannaeyjar er nú í vinnslu.  Ritnefnd, höfundur, ritstjóri og umbrotsmaður vinna nú dag hvern að verkinu, texta, myndum og umbroti.  Árbókin kemur út á vordögum og verður þá greiðsluseðill sendur til félagsmanna fyrir árgjaldinu og árbókin síðan sent til félagsmanna eftir að árgjaldið hefur verið greitt.

GPS staðsetningartæki og rötun - námskeið

Almennt námskeið fyrir byrjendur og þá sem vilja upprifjun í notkun á staðsetningartækjum.
Farið er yfir notkun á staðsetningartækjum og þátttakendur æfa sig í að finna punkta og setja inn í tækin og merkja út á korti. Þátttakendur hafa með sér eigin GPS tæki. Námskeiðið er tvö kvöld inni og svo ein útiæfing.
Kennari: Sigurður Jónsson björgunarsveitarmaður og leiðbeinandi í rötun og ferðamennsku.
Tími: Þri. 5., og fim. 7. kl. 19:39 - 22:30 og útiæfing laugardaginn 9. maí (1 - 2 klst.).
Verð: 12.500 kr. Félagsmenn í Ferðafélagi Íslands fá 10% afslátt af námskeiðsgjaldinu.
Nánari upplýsingar fást í Endurmenntunarskólanum í s. 514 9601 eða á
ave@tskoli.is

Námskeið

Námskeið af ýmsu tagi standa nú yfir eða eru framundan hjá Ferðafélaginu.  Má þar nefna Fjallaskíðanámskeið og jöklaöryggisnámskeið með Jökli Bergmann sem og fararstjóranámskeið og skálavarðanámskeið. Sjá nánar á heimasíðu FÍ

Fullbókað í fjölmargar ferðir sumarsins –
örfá sæti laus í nokkrar.

Ljóst er að landsmenn verða á faraldsfæti innanlands í sumar.  Fullbókað er nú í fjölmargar sumarleyfisferðir FÍ.  Má þar nefna flestallar Hornstrandaferðir félagsins, sem og ferðir bæði um vesturland og norðurland.  Laugavegurinn og Fimmvörðuháls njóta vinsælda.  

Ingunn Sigurðardóttir skála- og þjónustufulltrúi FÍ segir að landsmenn séu nú fyrr á ferðinni með bókanir í skála.  ,, Það er mjög mikið bókað í skálana á Laugaveginum og nánast allt orðið fullt yfir hásumarið.  Þá hefur skáli FÍ i Norðurfirði  notið vaxandi vinsælda undanfarin ár."  Ingunn segir mikið sé um erlenda ferðamenn að venju en Íslendingar séu nú bæði fyrr á ferðinni og sér sýnist að það verði um töluverða aukningu á milli ára.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir að það sé ánægulegt hve margir hafi gengið í félagið nú á fyrstu mánuðum ársins.  ,,Ef viðkomandi er á annað borð að ferðast innanlands og ætlar t.d. Laugaveginn þá margborgar það sig að vera í Ferðafélaginu.  Árgjaldið nú er 5.400 og fá félagsmenn árbókina senda heim sem og félagsskírteini sem gefur félögum betra verð, bæði í ferðum og skála og fá einnig afslætti í fjölda útivistarverslana."  Páll segir að félagsgjald FÍ gildi fyrir alla fjölskylduna, fram til 18 ára aldurs.

Esjan alla daga – góð þátttaka – myndir á myndabanka

Góð þátttaka er í Esjunni alla daga, 5 daga Esjuátaki FÍ sem nú stendur yfir.  Tæplega 30 manns tókuþátt í gönguferðinni í fyrradag og 16 í gær á Esjuna í ágætisveðri.  Gengið er á Esjuna alla daga vikunnar, og hljóta þeir sem taka þátt í öllum gönguferðunum glæsileg verðlaun frá FÍ.  Esjan alla daga – fimm daga í röð verður aftur á dagskrá hjá FÍ í apríl, en auk þess er boðið upp á gönguferð á Esjuna með fararstjóra alla fimmtudaga kl. 18.

Skálaverðir Í Landmannalaugum og Þórmörk

Skálaverðir verða í skálum FÍ í Landmannalaugum og Þórsmörk yfir páskana.  Boðið verður upp á gönguferðir með leiðsögn á báðum stöðum. 
Ferðafélagið stendur fyrir ferðum í báða skálana 9. – 12. apríl.  
Verð í ferðirnar er kr. 18.000.  Innifalið: far með fjallajeppum, göngufeðrir og gisting.

Fjallabók FÍ

Fjallabók FÍ er verkefni sem nú er að hefjast hjá Ferðafélaginu.  Í verkefninu eru allir hvattir til að ganga á fjöll og skrá í sérstaka Fjallabók FÍ.  Þegar þú hefur gengið á 10 fjöll og fyllt út í bókina og með undirskrift ferðafélaga þá fá þátttakendur viðurkenningu frá Cintamani.  Öll fjöll eru gild í verkefnið en aðeins má skrá hvert fjall einu sínni.

Fjallabækur FÍ fást á skrifstofu FÍ og liggja frammi víðar.

Þegar farið er á fjöll

Munum að vera í góðum gönguskóm. Hlý nærföt og hlífðarfatnaður er nauðsynlegur.

Förum aldrei svöng á fjöll. Höfum nægilegt nesti til dagsins þó við ætlum í stutta göngu.  Gott er að hafa heitt á brúsa.

Skoðum veðurspá fyrir brottför og skiljum eftir ferðaplan.

Munum að því betur sem við undirbúum fjallgönguna, t.d. með því að lesa um svæðið og skoða kort þeim mun ánægjulegri verður ferðin, áhuginn vex og þar með verður gengið á fleiri fjöll.

Ferðaáætlun FÍ
Spennandi ferðir framundan

·         Fimm tindar með FÍ – fyrsta ganga hefst 16. maí

·         Fjögur sæti laus á Hesteyri með Sigrúnu Valbergs – skíðaferð um páska

·         Esjan alla daga – fimm daga í röð, aftur á dagskrá í apríl

·         Esjugöngur alla fimmtudaga kl. 18

·         Göngugleði alla sunnudag kl. 10.30

·         Skíðaganga á Pálmasunnudag frá Þingvöllum, yfir Hvalvatn að Glym

·         Skíðaferðir um helgar ef veður og aðstæður leyfa, kynnt með stuttum fyrirvara

·         Þverártindsegg og Hrútfjallstindar í maí

Með kveðju,
Skrifstofa FÍ
www.fi.is, s. 568-2533, fi@fi.is