Kóngsvegur í fornbílum 16. júní
Á þessu ári eru liðin 100 ár frá komu Friðriks konungs VIII en þá var lokið við gerð Konungsvegarins um Þingvelli, Laugarvatn, Gullfoss og Geysi. Konungsvegurinn er sennilega ein dýrasta vegaframkvæmd Íslandssögunnar u.þ.b. 14% af ársútgjöldum ríkisins á þeim tíma og kostaði líka ómælt strit og dugnað vegargerðarmanna við frumstæð skilyrði.
Í tilefni af afmælinu efna Ferðafélag Íslands og Fornbílaklúbburinn til ferðar í fornbílum frá Reykjavík um Þingvelli og austur að Laugarvatni og gefst fólki tækifæri að kaupa sér far í fornbílunum.
Lagt verður upp í ferðina frá höfðuðstöðvum FÍ Mörkinni 6 kl. 9 að laugardagsmorgni.
Ekið verður til Þingvalla og Laugarvatns og stansað á nokkrum stöðum og heimsóknin rifjuð upp í sögum og ljóðum. Ólafur Örn Haraldsson er fararstjóri í ferðinni og Sigurður G. Tómasson og Gísli Sigurðsson sjá um leiðsögn. Bóka þarf í ferðina fyrirfram. Boðið verður upp á léttar veitingar á Laugarvatni, en þátttakendum er frjálst að hafa með sér nesti í bakpoka þess utan.
Verð kr. 5000 / 7000
Innifalið: fargjald, leiðsögn og léttar veitingar.
Örfá sæti laus, panta þarf fyrirfram.
Áætlað er að ferð ljúki á Laugarvatni um klukkan þrjú og heldur þá hver bíll heim eftir hentugsemi og skilar farþegum í Mörkina 6.
Fimmvörðuháls 16. 17. júní og fimm aðar helgar í sumar.
Ekið í rútu frá Mörkinni 6 að Skógum undir Eyjafjöllum og gengið yfir Fimmvörðuháls og í Þórsmörk. Rútan flytur farangur í Langadal og sækir göngumenn þar sem komið er niður í Þórsmörk. Brenna og kvöldvaka um kvöldið. Gist í Skagfjörðsskála. Haldið til Reykjavikur um hádegið. Ekið til Reykjavíkur með rútu FÍ.
Verð kr 14.000 / 16.000
Innifalið: Gisting, rúta, trúss, fararstjórn og grillveisla í Langadal.
Fararstjóri: Steinunn Leifsdóttir
Leggjarbrjótur Þingvellir- Hvalfjarðarbotn 17. júní
Á milli Botnsdals og Þingvalla liggur forn þjóðleið, sem nú á dögum er kennd við Leggjabrjót. Lagt er af stað í rútu frá Mörkinni 6. kl. 10.
Verð kr. 2000 / 4000
Fararstjóri: Leifur Þorsteinsson
Jónsmessuganga á Heklu 22. júní
Ekið upp Landsveit, beygt við Dómadalsleið og að Heklu við Skjólkvíar. Gangan hefst um kl. 20.00 frá Skjólkvíum. Áætlað að vera á toppnum um miðnætti og að ferðinni ljúki um kl 3. Frábært útsýni yfir Suðurland við réttar aðstæður.
Verð kr. 3000 / 5000 með rútu, einkabíll kr. 2000.
Fararstjóri: Páll Guðmundsson, leiðsögn: Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur.
Lagt af stað úr Reykjavík kl. 18.00. Þátttakendur geta valið um að fara á einkabílum eða með rútu.
Esjudagur FÍ og SPRON 23. júní
Boðið upp á gönguferðir á Esjuna í fylgd fararstjóra frá FÍ.
Jarðfræðingar, sagnfræðingar og fjallamenn mæta
Dagskráin er tvískipt. Esjudagur með gönguferð á Þverfellshorn, skógargöngu og Esjuhlaupi kl. 13.30 og kvöldagskrá kl. 20 með Jónsmessugöngu og miðnæturstemmingu á Esjunni, álfadansi og brennu á toppi Þverfellshorns um miðnætti. Dagskráin auglýst nánar á næstunni. Þátttaka ókeypis, allir velkomir.
Langisjór með FÍ og Landvernd 24. júní
Föstudaginn 22. júní, fræðslufundur Mörkinni 6 frá kl. 19:30.
Snorri P. Snorrason, jarðfræðingur, og Hilmar Malmquist, vatnalíffræðingur, halda erindi um náttúrufar, lífríki mótun og myndun Langasjávar í Mörkinni 6.
Laugardaginn 23. júní.
Fólk fer á eigin vegum upp í Hólaskjól. Hægt er að gista í skála eða á tjaldsvæðinu við skálann. Um kvöldið verður kvöldvaka og sögustund.
Sunnudagur 24. júní.
Farið með rútu upp í Langasjó kl. 8:00. Gengið verður um Fögrufjöll, Breiðbak og Sveinstind.
Verð kr: 6.000 / 8.000
Innifalið: rúta frá Langasjó, fræðslufundur, fararstjórn og gisting í Hólaskjóli.
Hægt er að kaupa far með rútu frá Reykjavík Langisjór Reykjavik,
Aukagjald fyrir rútu úr Reykjavík kr. 6000.
Góður vegur er í Hólaskjól, fólksbílafært. Ekið er að Hólaskjóli upp Skaftártungur.
Akstur frá Hólaskjóli að Langasjó tekur ca 60 mínútur.
Fljótasigling, Brúará - Hvítá 1. júlí
Ferðafélagið býður upp á rólega og örugga siglingu á gúmmíbátum í fögru umhverfi neðsta hluta Brúárár og Hvítá á að Öndverðarnesi. Komið í land á þekktum stöðum, fræðsla um sögu og byggð og veitingar af heimaslóðum. Ferðin endar í Þrastaskógi með grillveislu. Þátttakendur koma á eigin bílum í Þrastaskóg og eru keyrðir að upphafsstað siglingar við brúnna yfir Brúará. Ferðin hefst kl. 10.00 við Þrastaskóg. Verð kr 10.000 / 12.000 Innifalið: rúta frá Þrastaskógi, sigling, fræðsla og grillveisla.
Fararstjórn: Ólafur Örn Haraldsson og Páll Guðmundsson
Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði, Surtshellir, hraun, gígur og veiði
Sigrún Valbergsdóttir er fararstjóri í afar fáfarinni gönguleið um afréttir Borgfirðinga og Vestur Húnvetninga. Lagt er upp frá vaði á Norðlingafljóti meðfram Eiríksjökli og upp undir Langjökul. Þaðan er haldið norðvestur yfir Arnarvatnsheiði og niður í Miðfjörð. Engan mat þarf að bera í ferðinni.
Sjá nánar: http://www.fi.is/ferdir/ferdir-fi/nr/296/
Sæludagur í Hlöðuvík með Guðmundi Hallvarðssyni
Hin sívinsæla fjöldskylduferð, þar sem dvalið er í Búðarbæ. Skipulagðar gönguferðir um nágrennið og kvöldvökur með söng og glensi.
Sjá nánar: http://www.fi.is/ferdir/ferdir-fi/nr/304/
Ungfrú Rauðisandur.is
Ævintýraferð í lok júlí um Rauðasand með gönguferðum, kajaksiglingu, sjóstangaveiði, grillveislu og kaffikvöldi. Fjögurra daga ferð þar sem fararstjórinn ungfrú Rauðisandur.is leiðir þátttakendur um frægar slóðir, meðal annars um Sjöunduá, Stálfjall, Rauðasand, Hlein, Skor og Melanesi, Selárdal, Uppsali, Látrabjarg og fleiri staði.
Verð kr. 34.000 / 37.000
Innifalið: Tjaldstæði, kajaksigling, sjóstangaveiði, grillveisla, kaffikvöld og fararstjórn
Fararstjórar: Vilborg Arna Gissurardóttir og Örlygur Steinn Sigurjónsson.
Sjá nánar allar ferðir á heimasíðu FÍ
Með kveðju
Skrifstofa FÍ
www.fi.is, s.568-2533, fi@fi.is