Fréttapóstur FÍ 15. maí.

Fréttapóstur frá Ferðafélagi Íslands - 15. maí.

Skíðaferð yfir Drangajökul  um Hvítasunnuhelgina 26. – 28. maí

 

Nokkur sæti laus í skíðaferð yfir Drangajökul um Hvítasunnuna.  Þátttakendur koma á eigin bílum að Dalbæ við Unaðsdal á föstudagskvöld þar sem gist er fyrstu nóttina.  Að morgni laugardags er lagt af stað yfir Drangajökul og gengið yfir í Reykjafjörð þar sem gist verður í tvær nætur.  Aðeins er gengið með dagpoka, vistir fluttar sjóleiðina í Reykjafjörð.  Þátttakendum stendur til boða að sigla til baka undir björg.  Þeir sem ganga verða sóttir í Hrafnfjörð.  Snjóalög er góð og betri en útlit var fyrir. Í Reykjafirði er farið í dagsgöngur meðal annars á Geirólfsnúp og yfir í Skjaldbjarnarvík.  Á þriðja degi er gengið yfir í Hrafnfjörð.  Sérstakt kynningarverð er á þessari ferð, kr. 18.000 / 20.000, innifalið gisting, kvöldverðir, sundlaug, sigling og fararstjórn.  Þegar eru 10 manns skráðir þannig að ferðin verður örugglega farin.   

 
Hvannadalshnjúkur 26. maí.

 

Alls eru 100 þátttakendur skráðir í ferð FÍ á Hvannadalshnjúk undir fararstjórn Haraldar Arnar Ólafssonar, sem þar með er fullbókuð.  Undirbúningsfundur fyrir ferðina er miðvikudaginn 23. maí kl. 20.00 í sal FÍ Mörkinni 6.

 

FÍ og Þingvallaþjóðgarður

 

Ferðafélagið og Þingvallaþjóðgarður endurtaka nú samstarf frá því í fyrra og bjóða upp á gönguferðir á fjöll í þjóðgarðinum. Gengið verður alla sunnudaga næstu 6 vikurnar.   Fjallahringur Þingvalla, hefst með gönguferð á Ármannsfell sunnudaginn 20. maí og er mæting kl. 10.30 í Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Fararstjóri er Einar Sæmundsen fræðslustjóri þjóðgarðsins.  Næstu sunnudaga er síðan gengið á Hrafnabjörg, Arnarfell, farið í hellaskoðunarferð, Leggjarbrjót og endað með gönguferð á Skjaldbreið.  Ferðirnar eru nánar kynntar á heimasíðu FÍ, undir ferðir.  Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.

 

Færeyjar með Sigrúnu Valbergs.

 

Enn eru nokkur sæti laus í viku gönguferð um Færeyjar með Sigrúnu Valbergs sem farin verður í lok maí. Nánari upplýsignar veitir Trex hópferðarmiðstöðin.

 

Morgunhressir göngugarpar

 

Alls tóku 156 morgunhressir göngumenn og konur þátt í morgungöngum FÍ í síðustu viku.  Gengið var á fjöll alla daga vikunnar klukkan sex að morgni.  Tíu þátttakendur mættu í allar göngurnar og fengu verðlaun frá FÍ í síðustu gönguferðinni þegar gengið var um Viðey.

 

Skíðaferð á Okið frestað vegna aurbleytu í Kaldadal

Skíðaferð FÍ á Okið sem fara átti næsta sunnudag hefur verið frestað vegna aurbleytu á veginum í Kaldadal.  Ferðin verður farin í lok maí.

 

Skálaverðir til starfa

 

Fyrstu skálaverðir FÍ halda til starfa í vikunni.  Skálaverðir taka þá  til starfa í Langadal í Þórsmörk.  Annars mæta skálaverðir til skála á Laugaveginum í júní, eftir því sem færð og aðstæður leyfa.  Skálar FÍ á Laugaveginum eru nú lokaðir og umferð bönnuð um svæðið þar til Vegagerðin hefur opnað fyrir umferð.  

 

Greiða þarf sumarleyfisferðir þremur vikum fyrir brottför

 

Sumarleyfisferðir FÍ  hefjast með sögugöngu Sigrúnar Valbergs og Magnúsar Jónssonar 17. – 20. maí þar sem gengið verður um slóðir Egils Skallagrímssonar, Helgu fögru, Björns Hídælakappa og Grettis sterka.  Fullbókað er í ferðina.  Þátttakendur í sumarleyfisferðum eru minntir á að sumarleyfisferðir FÍ þarf að greiða að fullu minnst þremur vikum fyrir brottför.

 

Hraðferðir um Laugaveginn og Fimmvörðuháls

 

Fullbókað er í ferðir FÍ um Laugaveginn í sumar. Enn er laust í hraðferðir um Laugaveginn, þriggja daga ferðir sem og í ferðir yfir Fimmvörðuháls, helgarferðir sem enda með grillveislu í Langadal, sjá nánar undir ferðir á heimasíðunni og í ferðaáætlun.  

 

Árbókarferð um Húnaþing eystra 2. – 3. júní með Jóni Torfasyni og Sigrúnu Valbergs. Sjá nánar á heimasíðu FÍ.

 

Helgarferð í Þórsmörk 8.  10. júní

 

Fjölskyldu, skemmti og fræðsluferð í Þórsmörk

Helgarferð í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins.

Fræðsla um myndun og mótun Þórsmerkur, vistkerfi birkiskógarins, gróður og dýralíf og fornar skógarnytjar. Listasmiðja sett upp þar sem þátttakendur geta fengið útrás fyrir listamanninn í sér og sótt efni í náttúruna til að vinna með.

Fararstjórar Guðjón Magnússon og Hreinn Óskarsson.

 

Spennandi dagsferðir í júní

FÍ minnir á spennandi dagsferðir í sumar;  fræðslu og skemmtiferð um Þjórsárdal 3. júní,  vorferð Hornstrandafara 9. júní, Esjudag FÍ og SPRON 10. júní, fornbílaferð um konungsveginn 16. júní, Leggjarbrjót 17. júní,  Jónsmessugöngu á Heklu 22. júní,  Langisjór 24. júní og rólega og örugga fljótasiglingu niður Brúará og Hvítá 1. júlí.

 

Betra er að bóka sig með fyrirvara í dagsferðir FÍ þar sem þátttaka er takmörkuð í einstaka ferðir.

 

Árbók FÍ Húnaþing eystra er nú í dreifingu til félagsmanna.  Félagsmenn eru beðnir um að greiða árgjaldið í næsta banka eða sparisjóði og fá þá bókina senda heim.

 

 

Með kveðju

Skrifstofa FÍ

www.fi.is, s.568 2533, fi@fi.is