Fréttapóstur FÍ 20. janúar

Myndakvöld FÍ
Næsta myndakvöld FÍ er miðvikudaginn 21. janúar.  Þá sýna Ína D. Gísladóttir formaður Ferðafélags fjarðarmanna og Pétur Þorleifsson fjallamaður Íslands.  Pétur sýnir myndir frá Vestmannaeyjum sem teknar voru 1966 og Ína sýnir myndir að austan og segir frá starfi og ferðum félagsins.  Aðgangseyrir er kr. 600, innifalið kaffi og meðlæti og allir velkomnir.

Fjallakvöld FÍ
Fimmtudagur 22. janúar kl. 20
Ferðafélagar, fjallafólk og útivistaráhugamenn hittast og spjalla um ferðir, leiðir, búnað, myndir, bækur og fleira er tengist ferða-  og fjallamennsku. Sérfræðingar og reynslumiklir ferðamenn mæta  til skrafs og ráðagerða. Kaffi og fjallakakó á könnunni.   Fjallakvöldin verða á dagskrá í allan vetur,  einu sinni í mánuði á fimmtudögum.    Á næstu Fjallakvöldum verður meðal annars boðið upp á kynningar á búnaði, þjónustu og fjölmörgu er tengist fjalla- og ferðamennsku.
Allir velkomnir.

Ferðaáætlun FÍ 2009

Ferðaáætlun FÍ 2009 kemur út  föstudaginn 23. janúar og er dreift til félagsmanna FÍ ásamt fréttabréfi. Þá er Ferðaáætluninni einnig dreift með Morgunblaðinu laugardaginn 31. janúar.  Í Ferðaáætluninni verður að finna upplýsingar um sumarleyfisferðir FÍ, helgarferðir, dagsferðir,  kvöldferðir, skíða – páska – jeppa og hjólaferðir.  Að venju eru á dagskrá fjölmargar sígildar ferðir svo sem um Laugaveginn, Fimmvörðuháls,  Hornstrandir og Morgungöngur FÍ svo og ýmsar nýungar og má þar nefna María María fjölskylduferðir í Þórsmörk, Fimm tindar með FÍ, Örferðir FÍ, Barnavagnaviku FÍ og margt fleira.  Sama dag og áætlunin kemur út verður byrjað að bóka í ferðir FÍ.  Áætlunina verður jafnframt að finna í ferðadagskrá á heimasíðu FÍ sem og á pdf skjali á heimasíðunni.

Göngugleði – ferðaskýrsla 18. janúar

Göngugleði FÍ er sem fyrr alla sunnudagsmorgna og er lagt af stað frá Mörkinni 6 kl. 10.30.  Þátttaka í göngugleði FÍ er ókeypis og allir velkomnir.  Ekið er á einkabílum að upphafsstað gönguferðar, sem yfirleitt tekur 3 – 5 klst.  Mikilvægt er að vera vel búinn, í góðum hlífðarfatnaði og með nesti í bakpoka.  Margir taka með sér gönguskíði í göngugleðina.

Sunnudaginn 18. janúar söfnuðust saman alls 13  göngugarpar á leiðinni frá Veggnum og upp í Bláfjöll. Tveir óskíðabúnir voru skildir eftir við Rauðhóla. Hinir 11 voru búnir til skíðagöngu.Genginn var hringur í Bláfjöllum í tveimur flokkum, annar fór rangsælis, hinn réttsælis. Raunar var um tíma þriðji hópurinn sem samanstóð af aðeins einum. Þeir sem rangsælis fóru hófu gönguna við bílastæði skíðagöngumanna í Bláfjöllum og héldu fyrst upp að vörðu, þaðan upp að Heiðartoppi þar sem drukkið var kaffi eftir árangurslausa leit að vindstreng. Frá Heiðartoppi var gengið út að Kerlingarhnúk og þar inn í dalbotn, tekin mjög róttæk vinstri beygja og haldið til baka með hlíðum niður að bílastæði.

Gengnir voru 11 km á 3 klst. og 15 mín. Réttsælishópurinn fór sama hring en öfugan. Þetta mun vera hefðbundinn hringur skíðagöngumanna í Bláfjöllum.  Einkar fagurt var á fjöllum þennan dag, sól um allt, þægilegt frost og vindlítið. Skíðafæri eins og það getur best orðið.Þátttakendur voru:Arnbjörn, Björg, Björn Z, Bragi, Eiríkur, Erna, Maggi Konn, Kristján M, Sóley Ólafs, Pétur, Sæmundur. Myndir sem fylgja eru m.a. af rangsælishópnum. Kveðja. Nefndin.

Borgarganga FÍ og Hornstrandafarar FÍ 2009

Sunnudaginn 11. janúar 2009 var gengið um gamla Vesturbæinn undir leiðsögn Péturs H. Ármannssonar og Magnúsar Skúlasonar arkitekta.  Þetta var í sjötta sinn sem Hornstrandafarar FÍog Ferðafélagar hefja nýtt gönguár með Borgargöngu undir leiðsögn Péturs.

Gangan hófst í Grófinni og var haldið þaðan um Fischerssund, sem er ein fárra gatna í Reykjavík sem ber nafn erlends manns, og stöldruðum við hús nr. 3 sem kallast norska bakaríið. Þaðan lá leiðin upp í Garðastræti eða okkar „Wallstreet”. Þá héldum við vestur Ránargötu og staldrað var við á Stýrimannastíg og fræddu þeir félagar okkur um sögu timburhúsa þar s.s. gamla Stýrimannaskólans frá 1898 og hús norsku kaupmannanna L.H. Müller og Othars Ellingsen o. fl. Þá lá leiðin upp á Landakotshæð en þar var fyrst reist timburkirkja 1897. En árið 1929 var reist þar kirkja, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, úr steinsteypu í gotneskum stíl sem þótti merkilegt því kirkjur í þeim stíl voru aðallega hlaðnar úr steini.  Þá var gamla timburkirkjan flutt til og þjónaði lengi sem íþróttahús ÍR-inga þar til það var flutt upp að Árbæjarsafni. 

Við héldum áfram vestur Túngötu að Brekkustíg á heimaslóðir Magnúsar og rifjaði hann upp ýmsar prakkarasögur og sagði frá skemmtilegum og sérkennilegum karakterum eins og Vilhjálmi frá Skáholti og hvernig sjá mátti á skófatnaði hans hve langt hann væri kominn í „túrnum” sínum. Svo og Tóta á prikunum sem fékk það viðurnefni út frá sköpulagi og Bjössa kaupmanni sem fékk viðurnefnið ´morgun´ því hann opnaði ekki verslun sína fyrr en kl 10 !

Við héldum til baka um nærliggjandi götur og skoðuðum nokkur steinhús sem tóku að rísa eftir 1920 eftir að togaraútgerðin hófst. Síðan lá leiðin að húsi Benedikts Gröndal skálds við Vesturgötu og þaðan um Garðastræti aftur og staldrað var við gamla Vaktarabæinn en þar fæddist m.a. tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns.

Göngunni lauk svo með þeim hætti að tveir göngufélagar og húsráðendur að Suðurgötu 20 buðu okkur að skoða hinn gamla Hólavöll og fræddu okkur um sögu staðarins en hús þeirra stendur þar sem hinn gamli Hólavallaskóli stóð áður.

Þar var þeim Pétri og Magnúsi þökkuð frábær og fræðandi leiðsögn bæði um byggingarsögu og stíl svo og skemmtisögur sem lifnuðu við í sínu rétta umhverfi.

Veðurguðirnir voru okkur hliðhollir því veður hélst þurrt þó nokkuð napurt væri þegar leið á gönguna en um 105 manns tóku þátt í þessari fyrstu Göngugleði ársins.  ÓS

Með kveðju,

Skrifstofa FÍ
www.fi.is, s.568-2533, fi@fi.is