Félagsvist í kvöld
Kæru spilafélagar. Næsta félagsvist er í kvöld þriðjudaginn 20.nóvember.
Vistin hefst kl: 19:30.
Spilað verður í Mörkinni 6 í risinu. Svo spilum við 15.jan., 19. feb. og 18. mars 2008. Hámark þátttakenda er 52. Fyrstir koma fyrstir fá. Vinsamlega athugið að félagsvistin er ætluð félögum í Ferðafélaginu og gestum þeirra.
Verðlaun verða veitt, kaffi og kökur. Sérstök verðlaun verða veitt þeim sem flest stig hlýtur samtals á öllum spilakvöldum vetrarins. Ferðafélag Íslands verður 80 ára 27. nóvember og mun fagna því sérstaklega þann dag. Við, spilafólk, tökum forskot á sæluna og fáum okkur tertur og pönnukökur með kaffinu 20. nóv. Þátttökugjald er 600 kr.
Sérreglur Ferðafélagsins: Í nóló er ásinn lægsta spil. Komi í ljós eftir að spil er hafið, að rangt sé gefið, fær lið þess er gaf 6 stig en hinir 7. Bannað er að stökkva upp á nef sér, þótt samherja verði á í spilamennskunni. Þurfi einhver frá að hverfa vegna þess að fjögur sæti við spilaborð fást ekki fullskipuð eða vegna of mikillar aðsóknar, fær sá 156 stig enda skrái hann nafn sitt á skorblað. Henti að nota yfirsetu, fá þeir sem hvíla 7 stig.
Lifið heil
Höskuldur Jónsson
Ólafur Sigurgeirsson
Þórunn Lárusdóttir
Ferðafélagið 80 ára
Ferðafélag Íslands verður 80 ára 27. nóvember nk.
Félagið var stofnað þann dag árið 1927 í Eimskipafélagshúsinu.
Í tilefni afmælisins verður boðið til afmælisveislu í sal félagsins Mörkinni 6 á afmælisdeginum frá kl. 18.00 20.00.
Allir félagsmenn, vinir og velunnarar eru velkomnir í kaffi og vöfflur.
Í tilefni afmælisins eru birtar á heimasíðunni FÍ myndir úr sögu félagsins.
Ævintýrahelgarferð með gistingu í sögufrægum skála og gengið á heillandi fjöll í næsta nágrenni skálans.
24. - 25. nóvember
Helgarferð í Hlöðuvelli og gist í skála FÍ. Gengið á Hlöðufell, Högnhöfða eða Skriðu eftir því sem aðstæður leyfa. Ekið á breyttum fjallajeppum, sameiginlegur kvöldverður, kvöldvaka, sögustund og sprell. Góður útbúnaður nauðsynlegur, hlífðarfatnaður, svefnpoki, góðir gönguskór, broddar og nesti til ferðarinnar utan kvöldverðar á laugardegi. Skráning á skrifstofu FÍ fyrir 22. nóvember. Verð kr. 16.000 / 18.000
Innifalið, akstur, gisting, fararstjórn og sameiginleg máltíð.
Aðventuferð í Þórsmörk
30. nóv - 2. des
Helgarferð í Þórsmörk með spennandi gönguferðum, meðal annars á Rjúpnafell, Útigönguhöfða, Hátinda og fleiri staði eftir því sem aðstæður leyfa. Gist í Skagfjörðsskála. Brottför á föstudegi kl. 18.00, farið á breyttum fjallajeppum. Kvöldvökur, sögustundir og leikir í skálanum á kvöldin, þátttakendur leggja til efni í kvöldvökur. Sameiginlegur kvöldverður á laugardagskvöldi. Verð kr. 18.000 / 20.000
Innifalið: akstur, gisting, fararstjórn, sameiginlegur kvöldverður. Góður útbúnaður nauðsynlegur og nesti til ferðarinnar utan kvöldverðar á laugardegi.
Hjörleifur með fyrirlestur hjá Nafnfræðifélaginu
Laugardaginn 24. nóvember 2007 kl 13:15 flytur Hjörleifur Guttormsson, árbókarhöfundur F.Í. og fv. ráðherra, fyrirlestur hjá Nafnfræðifélaginu í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands, og gefur honum heitið Örnefnagrúsk á Austurlandi. Hjörleifur hefur um langt skeið stundað rannsóknir á náttúru og staðháttum á Austurlandi og
ritað mikið um landshlutann, þar á meðal fyrir Ferðafélag Íslands. Á ferðum
sínum hefur hann gefið gaum að örnefnum, kafað ofan í heimildir og rætt við
fjölda staðkunnugra um álitaefni. Í ljós hafa komið margháttaðar brotalamir
í notkun og staðsetningu örnefna og ósamræmi við útgáfu landabréfa. Í
fyrirlestrinum verða rakin dæmi um þetta og hvatt til rannsókna og
vandvirkni í túlkun og fræðslu um örnefni.
Fyrirlesturinn er öllum opinn.
Fjallið Skjaldbreiður
Um sextíu göngugarpar tóku þátt í afmælisferð FÍ á Skjaldbreið. Veður var ágætt að morgni þegar lagt var af stað en versnaði eftir gangan var hafin og var orðið heldur slæmt þegar upp á Skjaldbreið var komið. Sjá myndir úr ferðinni. Fararstjórar voru Páll Ásgeir Ásgeirsson og Páll Guðmundsson. Leifur Þorsteinsson var með fróðleik um líf og ljóð Jónasar og Steinunn Leifsdóttur las úr nokkrum ljóðum Jónasar.
Göngugleði á sunnudögum
Göngugleði FÍ er alla sunnudaga. Lagt er af stað frá Mörkinni 6 kl. 10.30 og gengið í nágrenni Reykjavíkur. Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir. Takið með nesti og góðan útbúnað.
Með kveðju,
Skrifstofa FÍ
www.fi.is, s.568-2533, fi@fi.is