Fréttapóstur FÍ 24. maí

Ölkelduháls á Hvítasunnudag með FÍ og Landvernd 27. maí

Lagt verður af stað úr Mörkinni 6 kl. 9:00 og hefst fræðslufundur í hótel Eldhestum klukkan 10:00. Þar munu Freysteinn Sigurðsson, jarðfræðingur og varaformaður Landverndar, og Björn Pálsson, héraðsskjalavörður, halda erindi um náttúrufar sögur og sagnir af svæðinu.

Eftir léttan hádegisverð, upp úr kl. 12:30, verður lagt af stað með rútu. Ekið upp á Ölkelduháls, gengið á Tjarnarhjúk og Dalaskarðshnúk horft yfir Reykjadal og Grændal. Gengið suður Dalafell niður Rjúpnabrekkur þar sem rútan tekur á móti hópnum. Leiðsögumaður Bjön Pálsson. Verð í ferðina er kr. 3000/5000, Innifalið rúta, fararstjórn og léttur hádegisverður.

Drangajökul – Reykjafjörður – lokaútkall

Nokkur sæti laus í skíðaferð yfir Drangajökul um Hvítasunnuna.  Þátttakendur koma á eigin bílum að Dalbæ við Unaðsdal á föstudagskvöld þar sem gist er fyrstu nóttina.  Að morgni laugardags er lagt af stað yfir Drangajökul og gengið yfir í Reykjafjörð þar sem gist verður í tvær nætur.  Aðeins er gengið með dagpoka, vistir fluttar sjóleiðina í Reykjafjörð.  Boðið er upp á fullt fæði í ferðinni.

Snjóalög er góð  á Drangajökli.  Á hájökli er mikill nýfallinn snjór og eru horfur á að heldur bæti á næstu daga. Maí hefur verið kaldur og því er óvenjumikill snjór á leiðinni ef miðað er við síðustu ár.  Þegar eru 12 þátttakendur skráðir í ferðina en nokkur pláss laus.

Fjallahringur Þingvalla – Hrafnabjörg 27. maí

 

Ferðafélagið og Þingvallaþjóðgarður endurtaka nú samstarf frá því í fyrra og bjóða upp á gönguferðir á fjöll í þjóðgarðinum. Gengið verður alla sunnudaga næstu 6 vikurnar.  

Fjallahringur Þingvalla, önnur ganga er á Hrafnabjörg 27. maí og er mæting kl. 11.00 í Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Fararstjóri er Einar Sæmundsen fræðslustjóri þjóðgarðsins. 

Næstu sunnudaga er síðan gengið á Arnarfell, farið í hellaskoðunarferð, Leggjarbrjót og endað með gönguferð á Skjaldbreið.

Ferðirnar eru nánar kynntar á heimasíðu FÍ, undir ferðir.  Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.

Athugið, mæting er í Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum kl. 11.00.

Fræðslu og skemmtiferð 3. júní um Þjórsárdal með Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins

Dagsferð sunnudaginn 3. júní  um  Þjórsárdal, Landsveit og Heklusvæðið í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Þarna var blómleg byggð á fyrstu öldum Íslands byggðar, sem nú er löngu horfin.  Á þessum ,,hring" er margt áhugavert að sjá sem tengist sögu þessarar byggðar og mannlífs, en einnig sögu jarðelda, uppblásturs og eyðingar.  Þarna hefur verið unnið mikið starf við að stöðva gróðureyðingu og endurheimta lággróður og skóg. Í lok ferðar verður komið við í Gunnarsholti þar sem boðið verður upp á veitingar.  Í för verða sérfræðingar á þessum sviðum og áhersla lögð á að varpa "nýju ljósi" á þessi svæði fyrir hinn almenna ferðamann.  Fararstjórar Sveinn Runólfsson forstjóri Landgræðslunnar og Hreinn Óskarsson skógfræðingur.  Farið með rútu frá Mörkinni 6 kl. 9.  Verð kr. 4.000 / 6.000

Fjölskyldu og skemmtiferð í Þórsmörk 8.  – 10. júní

Helgarferð í Þórsmörk í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Fræðsla um myndun og mótun Þórsmerkur, vistkerfi birkiskógarins, gróður og dýralíf, fornar skógarnytjar, listasmiðja sett upp þar sem þátttakendur geta fengið útrás fyrir listamanninn í sér og sótt efni í náttúruna til að vinna með. Dagskráin er ekki síst ætluð fjölskyldum. Boðið upp á kvöldverð (grill) á laugardagskvöldinu. Sérfræðingar á ýmsum sviðum náttúruvísinda verða með í för.  Fararstjórar Guðjón Magnússon hjá Landgræðslunni og Hreinn Óskarsson hjá Skógræktinni.  Farið með rútu úr Mörkinni 6 kl. 16 á föstudegi. Verð kr. 12.000 / 14.000. Innifalið, rúta, gisting, fararstjórn og grill.

Árbókin í dreifingu

Árbók FÍ er nú í dreifingu til félagsmanna og er send heim eftir að árgjaldið hefur verið greitt.  Íslandspóstur annast heimsendingu á bókinni.  Vakin er athygli á því að bókin er ekki sett í póstkasssa eða inn um bréfalúgu,  heldur barið að dyrum og bókin afhent viðkomandi.  Ef enginn er heima, þá er tilkynning skilin eftir um að nálgast megi bókina á næsta pósthús.

Með kveðju
Skrifstofa FÍ
www.fi.is, s. 568-2533, fi@fi.is