Fréttapóstur frá FÍ

Fréttabréf frá Ferðafélagi  Íslands
 
Myndakvöld miðvikudaginn 10. október

Fyrsta myndakvöld FÍ að loknu sumri verður nk miðvikudagskvöld kl. 20.00 Þá kynnir Gerður Steinþórsdóttir dagbókina Í náttúrunnar stórbrotna ríki eftir Ingólf Einarsson en Ferðafélagið gaf hana nýlega út.
Þar segir frá óbyggðaferð á fjallabílum um Brúaröræfi, eins og í Hvannalindir, Herðubreiðarlindir og Öskju. Sýndar verða ljósmyndir úr ferðinni og stutt kvikmyndarbrot. 
Ingólfur ritaði dagbækur frá ferðum sínum í nær tvo áratugi, en ferðin inn á Brúaröræfi er sú eftirminnilegasta að hans sögn. Hann er heiðursfélagi í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi. Gerður var yngsti þátttakandinn í óbyggðaferðinni og ritar formála að dagbókinni.
Þá kynnir Leifur Þorsteinsson nýkomið fræðslurit FÍ; Gönguleiðir upp úr botni Hvalfjarðar, sýnir myndir frá svæðinu, segir frá gönguleiðum og kynnir á korti.
Myndakvöldið hefst kl 20. Aðgangseyrir er að venju kr. 600 og innifalið er kaffi og meðlæti.  Allir velkomnir.

 
Hin árlega haustganga Hornstrandafara FÍ verður farin  

laugardaginn 13. október nk. Allir velkomnir.

Við höfum svipað fyrirkomulag og áður og höfum gönguna með árshátíðarívafi og blöndum saman útivist og skemmtun. Dagskráin verður í aðalatriðum á þessa leið:

Kl. 10  Brottför með rútum frá húsi Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6. Ekið verður  að bænum Brúsastöðum í Þingvallasveit.

Kl. 11  Við munum ganga á fjallið Búrfell (782 m) en við höfum grun um að ekki hafi margir gengið á það.  Þetta verður nokkuð létt fjallganga (byrjum í um 170 m hæð) og er frábært útsýni af fjallinu. Síðan er ætlunin að ganga niður af fjallinu í áttina að Svartagili (yfir Öxará) og þangað mun rútan sækja okkur.

Reiknað er með 4½  – 5½ klst. göngu við allra hæfi með tveimur köffum.

Kl. 17  Ekið að Nesjavöllum, en þar gefst ferðalöngum  kostur á að fara í sturtu, heita potta og skipta um föt.

Kl. 19  Hefst tveggja rétta kvöldverður. Milli rétta má búast við ávarpi leiðtogans, söng, glensi og gamanmálum og ekki má gleyma happdrættinu góða. Að lokinni máltíð og skemmtiatriðum leikur Breiðbandið sívinsæla fyrir dansi. Ekki er gert ráð fyrir skartklæðum, betri skálaföt vel við hæfi.

Kl. 23+  Ekið til Reykjavíkur.
Kostnaður fyrir rútu, heitan pott , kvöldverð og skemmtun er kr. 6000 og greiðist við brottför en þátttakendur hafi með sér nesti yfir daginn.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku fyrir 8. október nk.  í síma 568 - 2533 eða á fi@fi.is  og gefið upp nafn/nöfn.  

Nú er nægur tími til að pússa upp gönguskóna og viðra göngugallann !
Vonumst til að sjá ykkur sem flest.
Nefndin

 
Félagsvist Ferðafélags Íslands

Kæru spilafélagar.

Í vetur verður spilað þriðjudagana 16.okt., 20.nóv., 15. jan., 19. feb. og 18.mars.   Næsta félagsvist verður þriðjudaginn 16. október.  Vistin hefst  kl: 19:30.  Spilað verður í Mörkinni 6 – í risinu. Hámark þátttakenda er 52.  Fyrstir koma – fyrstir fá. Vinsamlega athugið að félagsvistin er ætluð félögum í Ferðafélaginu og gestum þeirra. Verðlaun verða veitt, kaffi og kökur.  Sérstök verðlaun verða veitt þeim sem flest stig hlýtur samtals á öllum spilakvöldum vetrarins. Þátttökugjald er 600 kr. Sérreglur Ferðafélagsins: Í nóló er ásinn lægsta spil. Komi í ljós eftir að spil er hafið, að rangt sé gefið, fær lið þess er gaf 6 stig en hinir 7. Bannað er að stökkva upp á nef sér, þótt samherja verði á í spilamennskunni. Þurfi einhver frá að hverfa vegna þess að fjögur sæti við spilaborð fást ekki fullskipuð eða vegna of mikillar aðsóknar, fær sá 156 stig enda skrái hann nafn sitt á skorblað. Henti að nota “yfirsetu”, fá þeir sem hvíla 7 stig.  
Lifið heil
Höskuldur Jónsson
Ólafur Sigurgeirsson
Þórunn Lárusdóttir

Vinnuferð í Norðurfjörð

Um sl. helgi var vinnuferð í skála FÍ í Norðurfirði á Ströndum. Gengið var frá fyrir veturinn og vatn tekið af, lokað fyrir glugga, flaggstöngin tekin niður og margt fleira.  Stærsta verkið var þó að nýlagt gólf í fjárhúsinu þar sem aðstaða er meðal annars fyrir tjaldgesti og dagsverðarhópa var málað. Jóhanna Gestsdóttir stýrði vinnuferðinni.  Sjá myndir á myndasíðu FÍ hér á heimasíðunni.

 
Vinnuferð í Nýjadal

Sl. föstudag var vinnuferð í Nýjadal þar sem nýtt skálavarðahús var sett niður við skála FÍ á svæðinu. Skálavarðahúsið var flutt úr Landmannalaugum og sett niður ofan við tjaldstæðið í Nýjadal í um 50 m fjarlægð frá stærri skálanum. Alls voru með í för sjö vinnukallar og einn smiður auk kranameistara.  Vinnan gekk afar vel og var lokið um mjaltir.  Veður var hið besta en tók að slydda um það leiti er vinnu var lokið.
Sjá myndir af skálavarðahúsinu á myndasíðu FÍ.

Kynning hjá Útilíf

Útilíf býður félagsmönnum í FÍ á sérstakt kynningarkvöld nk miðvikudagskvöld kl. 19.00 þar sem kynntar verða nýjar línur frá Cintamani, North Face og fleirum.  Það er tilvalið fyrir félagsmenn FÍ að gera góð kaup í Útilíf og koma svo á myndakvöld FÍ sem hefst kl 20.00

 
Ferðir í haust og vetur
Ferðir í ferðaáætlun FÍ 2007eru nú senn á enda. Lokaferðin í ferðaáætluninni er haustferð FÍ og Hornstrandafara FÍ.  Göngugleðin er alla sunnudaga kl. 10.30 frá Mörkinni 6.  Í nóvember verður síðan boðið upp á dags - og helgarferðir og jeppaferðir eftir aðstæðum og þær kynntar á heimasíðu FÍ og með tölvupósti til félagsmanna. Þá verða einnig hefðbundnar ferðir í skála, áramótaferð í Þórsmörk
Eftir áramótin verður boðið upp á vetrarferðir í skála; skíða og gönguferðir sem og jeppaferðir og þessar ferðir kynntar á heimasíðu og með tölvupósti.
Ferðanefnd FÍ vinnur nú að ferðaáætlun FÍ 2008 og kemur hún út í janúar 2008.
 
Göngugleði alla sunnudaga
Göngugleði FÍ er alla sunnudaga og lagt af stað frá  skrifstofu FÍ Mörkinni 6 kl. 10.30.  Ekið er í einkabílum að upphafsstað göngu og gengið í ca 3 - 6 klst eftir aðstæðum.  Þátttaka er göngugleðinni er ókeypis og allir velkomnir.  Þátttakendur taka með sér nesti og góðan búnað, bakpoka og hlífðarfatnað.

Með kveðju
Skrifstofa FÍ
Mörkinni 6
s. 568-2533,
fi@fi.is, www.fi.is

 

 

 



*********************************************

Þetta er tölvupóstsending frá Ferðafélagi Íslands.

Kíktu á http://www.fi.is og kynntu þér ferðir Ferðafélagsins.



Ef þú vilt  afskrá þig sendu þá einhver skilaboð til: <postlisti-off@fi.is>



Allar fyrirspurnir um póstlistann sendist