Fréttapóstur frá FÍ 30. maí

Esjuhappdrættið hefur göngu sína á ný

Ferðafélag Íslands, Sparisjóður Reykjavíkur  og Íslensku alparnir standa fyrir Esjuhappdrætti FÍ og SPRON nú þriðja sumarið í röð. Allir sem skrifa nafn sitt og netfang í gestabók sem geymd er í útsýnisskífu FÍ á Þverfellshorni lenda í potti sem dregið er úr vikulega. Vinningshafi hlýtur veglega gönguskó frá Íslensku ölpunum í verðlaun.

Dregið er í Esjuhappdrættinu á hverjum fimmtudegi og tilkynnt um vinningshafa á heimasíðum SPRON og FÍ, auk þess sem vinningshafanum er sendur tölvupóstur. 

Esjan nýtur sívaxandi vinsælda sem útvistarsvæði og ganga nú um 8 – 10.000 manns á Esjuna á hverju sumri.  Áætlað er að allt að 15000 manns gangi á Esjuna yfir árið í heild.

Ferðafélag Íslands og SPRON
Ferðafélag Íslands og SPRON hafa um árabil unnið saman að uppbyggingarstarfi í Esjuhlíðum. Unnið hefur verið að gerð stíga, merkingum, útgáfu og fræðslu auk þess sem Ferðafélagið hefur staðið fyrir vikulegum göngum á Esjuna undir leiðsögn fararstjóra. Jafnframt hafa SPRON og FÍ staðið saman að hinum árlega Esjudegi.   Esjuklúbbur FÍ og SPRON var stofnaður haustið 2005 eftir að um 8000 manns höfðu tekið þátt í Esjuhappdrætti FÍ og SPRON og skráð nafn sitt í gestabókina sem geymd er í útsýnisskífu á Þverfellshorni.

Árbókarferð FI, 2 – 3. júní

Undir leiðsögn Jóns Torfasonar ritstjóra árbókar F.Í. 2007 verður lagt af stað frá Mörkinni 6 kl 9 á laugardagsmorgni og haldið norður í land. Boðið verður upp á sambland af rútu og gönguferð, þar sem gert er ráð fyrir að hluti hópsins geti sleppt göngu.  Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar FÍ verður fararstjóri með Jóni.

Á dagskrá fyrri dags er Spákonufell, Króksbjarg, Hafnir, Kálfshamarsvík, kirkjan að Hofi (elsta hús sýslunnar), Skagaströnd og Höfðinn. Einnig gljúfur Laxár í Refasveit, Hildebrandshús á Blönduósi og/eða Heimilisminjasafnið. Gisting á Blönduósi  Á öðrum degi stefnir  göngufólk á Jörundarfell og Vatnsdalsárgil. Á meðan fer rútan út að Þingeyrum og síðan verður gengið meðfram Húnavatni. Skoðunarferð um Vatnsdalinn og litið á Vatnsdalshóla, Kattaraugað, Kornsárhúsið, Hof og Hvammsskriður. Möguleiki er á hringferð upp í Blöndudal með skoðunarferð í stöðvarhús Blönduvirkjunar. Þaðan er ekinn Kjalvegur fram að stíflu og síðan ekið niður í Vatnsal ofan frá.  Verð kr. 12.000 / 14.000, innifalið rúta, gisting og fararstjórn.

Dagsferð um Þjórsárdal og Heklusvæðið

Fararstjórar: Sveinn Runólfsson, Hreinn Óskarsson

Dagsferð sunnudaginn 3. júní um  Þjórsárdal, Landsveit og Heklusvæðið í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Þarna var blómleg byggð á fyrstu öldum Íslands byggðar, sem nú er löngu horfin.  Á þessum ,,hring" er margt áhugavert að sjá sem tengist sögu þessarar byggðar og mannlífs, en einnig sögu jarðelda, uppblásturs og eyðingar.  Þarna hefur verið unnið mikið starf við að stöðva gróðureyðingu og endurheimta lággróður og skóg. Í lok ferðar verður komið við í Gunnarsholti þar sem boðið verður upp á veitingar.  Í för verða sérfræðingar á þessum sviðum og áhersla lögð á að varpa "nýju ljósi" á þessi svæði fyrir hinn almenna ferðamann.
Verð kr. 4000 / 6000. Innifalið rúta og fararstjórn.
 
Fjallahringur Þingvalla - Arnarfell
Sunnudagur 3. júní
Mæting kl. 11.00 við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum
Þátttaka ókeypis allir velkomnir.

Vorferð Hornstrandafara FÍ
laugardagur 9. júní

Að þessu sinni verður haldið í Skorradal og gengið eftir Skorradalshálsi. Þaðan er góð útsýn bæði yfir Skorradalinn og Lundareykjadal. Einnig er fjallahringurinn sérstaklega glæsilegur með Botnsúlur, Skarðsheiði og fleiri fjöllum.Við hefjum gönguna efst á Hesthálsi og göngum væntanlega inn eftir hálsinum, en það mun þó ráðast af veðri.Þetta verður aðeins á fótinn í byrjun en við göngum mest í 400 m hæð.Göngulandið er þægilegt. Vegalengd er röskir 10 km og göngutími 5 – 6 klst.Mæting kl. 9:45 í MÖRKINNI 6 og lagt verður af stað stundvíslega kl. 10:00.  Verð kr. 5000.  Innifalið rúta, sund og kvöldverður.

Þórsmörk – 8. – 10. júní.

Helgarferð í Þórsmörk í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Fræðsla um myndun og mótun Þórsmerkur, vistkerfi birkiskógarins, gróður og dýralíf, fornar skógarnytjar, listasmiðja sett upp þar sem þátttakendur geta fengið útrás fyrir listamanninn í sér og sótt efni í náttúruna til að vinna með. Dagskráin er ekki síst ætluð fjölskyldum. Boðið upp á kvöldverð (grill) á laugardagskvöldinu. Sérfræðingar á ýmsum sviðum náttúruvísinda verða með í för. Verð kr. 12000 / 14.000.  Innifalið: rúta, gisting, fararstjórn og grillveisla.

Skálavarðanámskeið og vinnuferðir
Ferðafélagið stendur um helgina fyrir skálavarðanámskeiði fyrir skálaverði sem verða að störfum í sumar í skálum félagsins.  Einnig eru framundan vinnuferðir í skála eftir því sem færð og aðstæður leyfa.
 
Myndir af Hvannadalshnjúk
Ferð FI á Hvannadalshnjúk gekk vel og allir þátttakendur komust á toppinn.  Hægt er að skoða myndir úr ferðinni á heimasíðu FÍ.  Þátttakendur eru hvattir til að senda myndir úr ferðinni til skrifstofu FÍ, fi@fi.is og myndirnar verða á heimasíðuna.   Einnig eru myndir úr ferð FÍ á Drangajökul  sem farin var um Hvítasunnuna í einmunaveðurblíðu.
 
Með kveðju,
Skrifstofa FÍ
www.fi.is s.568-2533, fi@fi.is