Fréttir frá Ferðafélagi Skagfirðinga
Þann 12. september var gerður út leiðangur til viðhalds á Ingólfsskála er stendur í Lambahrauni norðan við Hofsjökul. Borin var tjara á allan skálann, þak málað og sett upp langþráð gasgeymsla utandyra. Tekið var rækilega til í skálanum og hann þrifinn hátt og lágt.
Skálinn var var tekinn í notkun 1978 og var fyrsta hús Ferðafélagsins, kenndur við Ingólf Nikodemusson, fyrsta formann félagsins. Fjölmargir komu að byggingu skálans á þeim tíma.
Í þessari ferð tóku þátt: Sigurþór Hjörleifsson eini heiðursfélagi FS, leiðangursstjóri, Ingvar B. Sigvhats, Björn Savarsson, Þorsteinn Kárason , Hjalti Pálsson, Jóhann Rögnvaldsson, Björn Jónasson, Árni Birgir Ragnarsson, Gunnar Helgi Helgason, Trond Olsen og Ágúst Guðmundsson.
Veðrið var hálfleiðinlegt, gekk á með byljum. Rigning var mest allan tímann í þessari frægu grennd þar til á laugardagskvöld, en þá var málningu lokið og karlar komnir í hús. Öll vinna við viðhald skála FS hefur hingað til verið unnin af sjálfboðaliðum og hefur umtalsverður hluti af þeim verið iðnaðarmenn af bestu sort sem er ómetanlegt.
Að verki loknu voru snædd fjögur spikfeit lambalæri með konfektsósu út á. Leiðangursmenn glöddust svo á kvöldvökunni yfir vel unnu verki við hefðbundna toddýdrykkju.
Vegurinn fram eftir er nokkuð góður um þessar mundir. Ræsi er komið á Rústakvísl og á níunda áratug síðustu aldar brúuðu Ferðafélagsmenn Fossá sem rennur austan Ásbjarnarfells. Lækur sem rennur í Ásbjarnarvötn er eina vatnsfallið sem óbrúað er á leiðinni.
Ingólfsskála hefur nú verið læst af illri nauðsyn eins og öðrum skálum Ferðafélags Íslands á hálendinu. Í anddyri skálans er lítið járnhylki með talnalás. Tölurnar fást uppgefnar hjá stjórnarmönnum FS gegn greiðslu gistigjalds.
ÁG.