Frumkvæði félagsins hefur skapað góða ferðamenningu, segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ.

Margt framundan hjá Ferðafélagi Íslands sem verður 80 ára í ár - Ást á landinu liggur í eðli Íslendinga

“Ferðalög, fróðleiksfýsn og ást á landinu liggja í eðli flestra Íslendinga. Þetta eru kjörsvið Ferðafélags Íslands, ásamt því að gefa fólki tækifæri til að vera í góðum félagsskap. Okkur hefur lánast að þróa starfið í takt við breyttar ferðavenjur um leið og haldið er fast í gömul gildi og hefðir,” segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands.

Ólafur Örn á fjöllum -120Stundum er sagt, rétt eins og sagan dæmir um, að fyrirtæki og félög lifi sjaldnast nema í fáeina áratugi. Saga Ferðafélags Íslands, sem verður 80 ára á þessu ári, er hins vegar undantekning frá þessari reglu. Félagið hefur sjaldan verið frískara en nú um stundir og starf þess öflugt, enda njóta ferðalög um landið mikilla og sívaxandi vinsælda. “Fyrst og fremst hefur Ferðafélagið þó lifað sakir þess að það er vettvangur félagslynds fólks sem ann landinu og vill styðja við góð verkefni sem unnið er að hverju sinni.”

Mörg járn í eldinum

Ólafur Örn segir að sem endranær hafi forysta Ferðafélags Íslands mörg járn í eldinum.

“Það er brýnt að auka enn frekar þjónustu við félagsmenn, þar með talinn aðbúnað í fjölsóttustu skálunum, sem eru í Þórsmörk, Landmannalaugum, á Laugaveginum og í Nýjadal. Þá þurfum við að efla upplýsingaþjónustu félagsins enn frekar, þar með talið útgáfustarfið en á því sviði höfum við verið í sókn síðustu ár, meðal annars með ýmsum smáritum um landslag og leiðir. Í öndvegi eru þó árbækurnar sem komið hafa út allt frá stofnun félagsins, en til þeirra er jafnan vandað og fyrir vikið þykja þær algjör undirstöðurit um land, náttúrufar, örnefni og byggðahætti.”

Engum vafa er undirorpið, að mati Ólafs Arnar, að starf Ferðafélags Íslands í tímans rás á ríkan þátt í ferðagleði Íslendinga og aukinni vitund fólks fyrir landinu og töfrum þess.

“Frumkvæði félagsins á 80 ára ferli hefur tvímælalaust skapað góða og innihaldsríka ferðamenningu, aukið áræði og þekkingu margra til ferðalaga og byggt upp aðstöðu svo sem sæluhús, brýr, ferðaleiðir og fleira,” segir Ólafur.

Framkvæmdir í Hvítárnesi

Á hverju ári eru, að sögn Ólafs, í gangi framkvæmdir við skála Ferðafélagsins og á sumri komanda verði hafist handa við gagngerar endurbætur á skálanum í Hvítárnesi, sem er elsta sæluhús félagsins og óneitanlega nokkur hluti af ímynd þess. Þá eru einnig í undirbúningi margvíslegar endurbætur í Landmannalaugum, Nýjadal og Þórsmörk.