Á árum áður var fátítt að menn ferðuðust um landið sér til skemmtunar.
Lífsbaráttan var hörð og lítið tóm gafst til slíkra ferða. Þekking almennings á landinu var af mjög skornum skammti. Tilgangur með stofnun Ferðafélags Íslands var m.a. að opna og kynna landið fyrir almenningi og greiða götu ferðamanna. Stofnun félagsins 1927 kom á góðum tíma. Landinn hafði þráð sjálfstæði, framfarir og breytta lífshætti og þá var þjóðin að laga sig að siðum og venjum nágrannaþjóða á sem flestum sviðum. Um leið voru fleiri landsmenn áhugasamari um að styrkja andlegan þrótt og líkamlegt hreysti.
Þegar í upphafi var lagður grunnur að kjörsviðum félagsins, tilgangi og markmiðum. Nú, 90 árum síðar, eru þau enn hin sömu. Stærstu verkefnin eru að hvetja fólk til að fara út og kynnast náttúru landsins, opna gönguleiðir, byggja skála og aðstöðu fyrir ferðamenn. Á síðustu árum hafa fjallaverkefni, lýðheilsu- og hreyfiverkefni sem og Ferðafélag barnanna og FÍ ung notið mikilla vinsælda.
Árbók félagsins hefur nú komið út í óslitinni röð í 90 ár og er einstakur bókaflokkur um land og náttúru. Árbókin er ein nákvæmasta Íslandslýsing sem völ er á, skrifuð af heimamönnum og fræðimönnum sem gjörþekkja það svæði sem fjallað er um hverju sinni. Félagið gefur einnig út gönguleiðarit, landakort og sérrit af ýmsu tagi.
Náttúruvernd hefur ávallt verið á stefnuskrá félagsins. Með því að kynna og opna landið fyrir almenningi er unnið mikilvægt starf til að auka náttúruvitund fólks. Því betur sem við þekkjum náttúru landsins þeim mun vænna þykir okkur um það og skiljum þau verðmæti sem felast í ósnortnum víðernum, landslagsheildum og öræfakyrrð.
Fararstjórahópur félagsins er glæsilegur. Þeir eru félagsmenn úr öllum áttum, m.a. úr röðum fræðimanna innan háskólasamfélagsins, heimamenn sem gjörþekkja hvern stein og úr hópi áhugamanna sem aflað hafa mikillar reynslu og þekkingar. Allur þessi hópur á það sameiginlegt að elska landið og hefur yndi af ferðum og miðlar af þekkingu sinni.
Ferðafélag Íslands er áhugamannafélag. Sjálfboðaliðastarf hefur í áratugi gert starf félagsins mögulegt. Sjálfboðaliðarnir og ekki síst forystufólk félagsins í 90 ár hafa verið frumkvöðlar og hugsjónafólk. Félagsmenn eru með stóra drauma og framtíðarsýn. Þannig hafa verið byggðir 40 fjallaskálar, lagðir tugir gönguleiða, reistar yfir 60 göngubrýr og farnar yfir 4000 ferðir með yfir 250.000 þátttakendum og gefnar út bækur í 90 ár. Segja má að þetta starf félagsins hafi einkennst af samfélagslegri ábyrgð í þágu almennings og þjóðarinnar.
Páll Guðmundsson
framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands
Greinin birtist fyrst í tímaritinu Ferðafélaginn, 90 ára afmælisriti Ferðafélags Íslands, sem út kom í byrjun júlí, 2017.