Fullbókað í draugaferð FÍ í Hvítárnes

Samkvæmt könnun árið 2000 trúðu 78% Íslendinga á líf eftir dauðann og kemur niðurstaðan sjálfsagt engum á óvart. Allir hafa fengið gæsahúð yfir góðri draugasögu við réttar kringumstæður. Ferðafélag Íslands byggði sitt fyrsta sæluhús í Hvítárnesi við Hvítárvatn árið 1929 og allt frá fyrstu tíð hafa gengið magnaðar sögur af reimleikum á staðnum.

Um miðjan september nánar tiltekið 11-12  þegar haustmyrkrið er orðið svart og náttúran komin í sinn sölnaða vetrarbúning efnir Ferðafélagið til sérstakrar draugaferðar í Hvítárnes og nágrenni. Með þessu vill Ferðafélagið minnast við þjóðleg og forn fræði og ganga á vit menningararfsins með vettvangskönnun.

Ferðin hefst á laugardagsmorgni þegar farþegar fara í rútu frá Geysi í Haukadal kl. 10.00 og aka sem leið liggur inn á Kjöl.
Á leiðinni verður hin átakanlega saga af feigðarför Reynistaðabræðra rifjuð upp og helstu áfangar þeirra skoðaðir. Rútan ekur hópnum inn að afleggjaranum inn að Beinahól á Kili en þar báru bræðurnir beinin haustið haustið 1780 og enn er hula dulúðar og ósvaraðra spurninga sveipuð um það sem raunverulega gerðist. Hópurinn gengur síðan í fótspor bræðranna og fjárreksturs þeirra að Beinahóli sem eru rúmir þrír kílómetrar hvora leið.
Við Beinahólinn vakna fornar sagnir og verða ljóslifandi fyrir augum ferðamanna í þöglu, köldu og miskunnarlausu hrauninu.

Þegar komið er til baka í rútuna er ekið áleiðis í Hvítárnes þar sem gist verður. Þátttakendur setjast saman yfir rjúkandi heita og kjarnmikla kjötsúpu og brauð en eftir kvöldmat er kvöldvaka að fornum sið. Þar verða rifjaðar upp reimleikasögur úr Hvítárnesi og sagt frá nýlegum tilraunum til að kveða niður þá anda sem þar ásækja ferðamenn. Ein koja í húsinu hefur á sér sérstakt orð á þessu sviði og er sagt að karlmenn sem þar hvíla verði oftar fyrir ásókn er aðrir. Dregið verður um það úr hópi karlanna hver fær að gista í “draugakojunni”.

Morguninn eftir reiða fararstjórar fram “morgunverð gangnamannsins” sem er lútsterkt ketilkaffi dísætt með hnausþykkum rúgbrauðssneiðum og spikfeitri kæfu. Eftir morgunmat fara ferðalangar saman í gönguferð um nágrenni skálans og rannsaka rústir sem tengjast draugaganginum, ganga eftir hinum forna Kjalvegi og fara að undarlegum álfasteini í nágrenninu sem tengist sögu Ferðafélagsins með sérstökum hætti.

Um hádegisbil er haldið til baka með rútunni niður að Geysi þar sem ferðinni lýkur síðdegis á sunnudag.

Fararstjórar eru hjónin Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir og innifalið í fargjaldi er kjötsúpa, morgunverður, rúta, leiðsögn og gisting.

Þess má geta að þessi ferð var fyrst á dagskrá haustið 2008 og í þeirri ferð gerðust ýmsir atburðir sem vart verða skýrðir eftir strangvísindalegum leiðum.

Verð: 15.000 / 18.000.

Innifalið: Akstur, leiðsögn, gisting og sameiginlegur matur.