Ljóst er að landsmenn verða á faraldsfæti innanlands í sumar. Fullbókað er nú í fjölmargar sumarleyfisferðir FÍ. Má þar nefna flestallar Hornstrandaferðir félagsins, sem og ferðir bæði um vesturland og norðurland. Laugavegurinn og Fimmvörðuháls njóta vinsælda. Þá er nú orðið fullbókað í ferðir FÍ á Hvannadalshnúk með Haraldi Erni Ólafssyni en um Hvítasunnuhelgiina fara 100 göngugarpar með FÍ á hæsta tind landsins.
Ingunn Sigurðardóttir skála- og þjónustufulltrúi FÍ segir að landsmenn séu nú fyrr á ferðinni með bókanir í skála. ,, Það er mjög mikið bókað í skálana á Laugaveginum og nánast allt orðið fullt yfir hásumarið. Sama má einnig segja um skála FÍ i Norðurfirði sem nú hefur notið vaxandi vinsælda undanfarin ár." Ingunn segir mikið sé um erlenda ferðamenn að venju en Íslendingar séu nú bæði fyrr á ferðinni og sér sýnist að það verði um töluverða aukningu á milli ára.
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir að það sé ánægulegt hve margir hafi gengið í félagið nú á fyrstu mánuðum ársins. ,,Ef viðkomandi er á annað borð að ferðast innanlands og ætlar t.d. Laugaveginn þá margborgar það sig að vera í Ferðafélaginu. Árgjaldið nú er 5.400 og fá félagsmenn árbókina senda heim sem og félagsskírteini sem gefur félögum betra verð, bæði í ferðum og skála og fá einnig afslætti í fjölda útivistarverslana." Páll segir að félagsgjald FÍ gildi fyrir alla fjölskylduna, fram til 18 ára aldurs.