Fyrsta skrefið er jólagjöfin í ár

Fyrsta skrefið - Heilsurækt á fjöllum



Gengið á eitt fjall á viku + Úlfarsfell. Jólagjöfin í ár, bæði handa þér eða maka eða góðum félaga.

Ferðafélag Íslands stendur fyrir nýju verkefni sem fer af stað í upphafi árs 2016. Verkefnið hefur hlotið nafnið Fyrsta skrefið þar sem gengið er á fjöll einu sinni í viku.

Verkefnið er hugsað fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin í fjallgöngu þar sem áhersla er lögð á að ganga rólega á létt og þægileg fjöll. Verkefnið hentar einnig öllum þeim sem vilja ganga rólega og njóta útiveru og góðs félagsskapar. Þátttakendur læra heilmikið um fjallamennsku, leiðaval, búnað, öryggismál og fleira.

Að venju í Ferðafélagsferðum er lögð áherlsa á fræðslu um sögu, náttúru og menningu auk þess sem gleðin og fjörið verður aldrei langt undan. Þar má nefna að Haukurinn verður tekinn á hverjum fjallstindi en einnig sungið, lesin ljóð og brugðið á leik.

Verkefnið stendur frá byrjun janúar fram í byrjun maí. Annað verkefni hefst síðan í lok ágúst og stendur fram að jólum.

Öll fjöllin í verkefninu eru þægileg og aðgengileg. Má nefna sem dæmi Helgafell, Mosfell, Keilir, Vífilsfell, Esjan, Þorbjörn og endað verður með göngu á Snæfellsjökul. Auk fjallgangna einu sinni í viku verður boðið upp á göngu á Úlfarsfell öll fimmtudagskvöld meðan á verkefninu stendur.

Umsjónarmenn verkefnisins eru Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson sem báðir tóku fyrstu skrefin í fjallgöngum fyrir nokkrum árum með Ferðafélagi Íslands og hafa síðan verið óstöðvandi. Fararstjóri með Reyni og Óla verður Auður Kjartansdóttir.


Verð kr. 56.400. Árgjald Ferðafélags Íslands er innifalið.

Kynningarfundur: Fimmtud. 7. janúar, kl. 20 í sal FÍ Mörkinni 6.