Gæsahúð á Úlfarsfelli - morgungöngur FÍ

Ekki var laust við hinir árrisulu göngugarpar í morgungöngum Ferðafélagsins fengu gæsahúð þegar Karlakórinn Fóstbræður söng Hærra minn Guð til þín, í rigningu og roki, efst á Úlfarsfelli eldsnemma morguns. Vel æfður kórinn, margraddaður undir stjórn Árna Harðarssonar, sögn sig inn í hjörtu göngumanna sem stóðu vindbarðir og blautir í slagvirði og hlýddu á með kakómjólk og ostaslaufu í hönd.  All súrrealískar aðstæður svo ekki verði meira sagt. 

 

Morgungöngum Ferðafélags Íslands 2008 lauk á föstudagsmorgni með göngu á Úlfarsfell. Um 90 manns þrömmuðu upp í austanrumbu og haugarigningu á köflum. Enginn heyrðist þó kvarta undan veðri og var heldur gleðibragur yfir hópnum.

Þegar upp var komið beið morgunmatur frá Ferðafélaginu eftir göngugörpum og var ekki slæmt að fá volga ostaslaufu og kókómjólk þegar rigningin barði hópinn af fullkomnu miskunnarleysi.

 

Sérstakt skemmtiatriði á toppnum kom á óvart en í hópnum leyndust allmargir félagar úr Karlakórnum Fóstbræðrum ásamt stjórnanda þeirra Árna Harðarsyni og tóku karlar til söngs þótt aðstæður væru nokkuð óvenjulegar. Það var óvenjuleg og ógleymanleg stemning að hlýða á kórinn syngja Hærra minn Guð til þín á þessari sérstöku stund á þessum kaldranalega stað.

 

Alls hafa því rúmlega 300 manns mætt í morgungöngurnar að þessu sinni sem er besta þátttaka fram að þessu og ljóst að þetta framtak nýtur vaxandi vinsælda. Á toppi Úlfarfells í morgun var hrópað ferfalt húrra fyrir þeim sem mætt höfðu í allar göngurnar fimm þetta árið og reyndust þeir vera 26 að fararstjórum meðtöldum.

 

Umsjónarmaður morgungangna þetta vorið var Páll Ásgeir Ásgeirsson