Trússferð með uppihaldi í 4 daga um héruð fyrir botni Breiðafjarðar Farið frá Laugum í Hvammssveit yfir Skarðsströnd, um Klofning, Fellsströnd og Hvammssveit aftur að Laugum.
Innifalið: Gisting í 8 manna tjöldum með kyndingu, fararstjórn, fullt fæði (morgunmatur, nesti og kvöldmatur (dægilegar krásir heimamanna))
Fararstjórar: Jón Jóel Einarsson, með rætur í byggðinni og hans frú Maggý Magnúsdóttir. Gamlir útivistarjaxlar.
Fararskjótar: Reiðhjól leiga kr. 4.000 (best að koma með sitt eigið). Kajak leiga kr. 6.500 Hvort tveggja þarf að panta með viku fyrirvara.
Hvenær: 10.-13. júlí, 2008 -
Hámarksfjöldi: 25 manns
Verð: 47.000 kr.
Mæting að Laugum í Sælingsdal. Þar er rekið Eddu hótel og prýðilegt tjaldsvæði, sundlaug og heitir pottar. Geyma má þar bíl o.fl. á meðan á ferðinni stendur.
1. dagur: Gengið kl. 9:00 frá Laugum í Sælingsdal inn dalinn og upp úr, með viðkomu á sögustöðum, upp á hæsta fjall Dala; Hafratind (900m) og yfir í Fagradal á Skarðsströnd. Í Fagradal eru fyrstu tjaldbúðir. Þar tekur á móti okkur heimafólk með fangið fullt af næringu, sögum og hjartahlýju.
2. dagur: Hjólað kl. 10 frá Fagradal til Nýp og heilsað upp á fólk sem hugsar stórt og djúpt. Áfram er hjólað út í Skarðstöð, Skarð, Reynikeldu, Á, Ballará og heilsað upp á heimafólk. Farið um Klofning og dáðst að útsýni yfir eyjarnar og Snæfellsnesið. Þarna erum við komin á einn af fallegri stöðum á landinu hvar við setum upp tjaldbúðir í skjóli listmálarans Helga Þorgils og listakokksins Möggu Lísu.
3. dagur: Kajakferð um Langeyjarnes og Dagverðarnes. Valkostur er göngu- og hjólaferð um svæðið, sérstaklega ef þannig viðrar. Tökum daginn frekar rólega enda er hér mikið að sjá og finna. Sömu tjaldbúðir.
4. dagur: Hjólað kl 10 áfram inn Fellsströnd að Staðarfelli að Hvammi í Hvammssveit og spjallað við heimamenn. Hjólin skilin þar eftir og gengið yfir fjallið til Lauga. Þar lýkur ferðinni með góðri máltíð á Hótel Eddu.
Skráning á skrifstofu FÍ í síma 568-2533